150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[19:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Núna liggur fyrir að meiri hlutinn hefur fellt allar breytingartillögur minni hlutans, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem boðaði breytt vinnubrögð á þessu kjörtímabili, aukið samráð milli meiri hluta og minni hluta, en ekki einu sinni í krísuástandi sem þessu getur stjórnarmeirihlutinn rétt höndina út yfir til minni hlutans og boðið þátttöku og samstarf um nauðsynlegar aðgerðir.

Tillögur minni hlutans voru til þess fallnar að bæta stórgallaðar tillögur meiri hlutans. Er þó verkinu ekki lokið og fer því fjarri. Við erum í fordæmalausri efnahagskrísu þar sem við ættum öll að snúa bökum saman, vinna saman að því að veita sem mesta viðspyrnu í þeim vanda sem við er að glíma, en því miður sjáum við enn sömu gömlu vinnubrögðin, enn sömu gömlu skotgrafirnar, enn sömu gömlu flokkslínurnar. Orð hæstv. forsætisráðherra frá því í morgun um að hver þingmaður (Forseti hringir.) væri aðeins bundinn samvisku sinni missa marks. Sú samviska er í það minnsta æðieinsleit.