150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

staðan á Suðurnesjum.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er allt rétt sem hv. þingmaður segir, við stöndum frammi fyrir áfalli af áður óþekktri stærðargráðu. Við finnum bara hér þegar við göngum um göturnar að það hefur verið slökkt á atvinnulífinu víða í miðbænum og úti um allt land. Nýjustu tölur sýna okkur að ef áfram heldur sem horfir verða uppsafnað í hlutabótakerfinu og á atvinnuleysisskránni u.þ.b. 20% vinnuafls á Íslandi. Það stefnir í það. Svar mitt við spurningu hv. þingmanns tekur mið af þessu. Við erum búin að stíga inn í stöðuna með almennar aðgerðir sem eru okkar fyrstu viðbrögð. Við erum að spila í þoku. Það er ákveðið myrkur fyrir framan okkur varðandi það hvernig úr þessu mun spilast áfram. Við erum tilbúin að ganga lengra og varðandi einstök fjárfestingarverkefni hvet ég menn til að skoða hvað þessi ríkisstjórn hefur í raun og veru miklu bætt við í fjárfestingum og síðan þessu fjárfestingarátaki ofan á fyrri áherslur sem þýðir ef við horfum bara til baka eins og tvö ár að við erum með 60% meiri fjárfestingu í dag en þá var. Við erum að auka hana núna á milli ára um hátt í 40%.

Við erum í gríðarlegu fjárfestingarátaki og auðvitað er hægt að tína til, eins og hv. þingmaður gerir, einstaka vegaframkvæmd eða einstaka mannvirki og spyrja: Hvers vegna var þetta ekki með á listanum? Aðalatriðið er að við erum búin að stíga inn í þessa mynd með myndarlegri aukningu í fjárfestingu, meiri aukningu í fjárfestingu en við höfum áður séð. Þetta er til viðbótar við hlutastarfaleiðina og annað það sem við erum að gera.

Varðandi Suðurnesin sérstaklega er það mikið áhyggjuefni. Uppsagnirnar hjá Isavia bætast auðvitað ofan á aðrar áhyggjur sem við höfum. Við þurfum að finna leiðir til að brúa þetta bil og hafa trú á framtíðinni, nýta tímann til að búa okkur undir það að aftur kvikni líf í Leifsstöð þannig að ferðamenn fari að koma (Forseti hringir.) og að það smiti út í allt nærsamfélagið á Suðurnesjum. Það eru fjölmörg atriði sem hægt er að huga að á komandi mánuðum.