150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

gagnsæi brúarlána.

[11:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég var orðinn stressaður en loksins fékk ég svar í lokin. Listi yfir þau fyrirtæki sem njóta ríkistryggðra brúarlána verður birtur. Ég fagna því. Hér má ekki vera neinn feluleikur því að hér erum við að tala um hagsmuni almennings og ríkistryggð lán upp á allt að 50 milljörðum.

Mig langar að bæta við einni mikilvægri spurningu. Við sjáum að fjöldi fyrirtækja nýtir sér hlutabæturnar þar sem almenningur greiðir allt að 75% launa starfsfólks einkafyrirtækja. Nú heyrast t.d. fréttir af einu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem ákvað að greiða sér 2 milljarða kr. arð í gær af öllum tímum. Ég velti fyrir mér hvernig viðbrögðin yrðu ef slíkt fyrirtæki færi allt í einu að nýta sér niðurgreiðslu launa frá ríkinu í formi hlutabóta. Þess vegna vil ég spyrja ráðherra: Telur ráðherrann að bann við arðgreiðslum eigi einnig við fyrirtæki sem tengja sig inn á hlutabæturnar? Telur ráðherra að það eigi einnig að upplýsa um hvaða fyrirtæki njóta þessarar opinberu fyrirgreiðslu? Það þarf ekki bara að tryggja gagnsæi, herra forseti, það þarf líka að gæta þess að réttlætiskennd þjóðarinnar verði ekki misboðið í þeim aðgerðum sem fram undan eru.