150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Það er nú bara þannig að með þessu frumvarpi er í raun og veru verið að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr á þessum fordæmalausu tímum. Á sama tíma og önnur lönd, eins og t.d. Bandaríkin, hafa fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum erum við hér að auðvelda kröfuhöfum að ganga á heimilin og þá sem eru í vanskilum í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum í í dag.

Herra forseti. Ég verð því að segja að nefndin verður að fara ítarlega yfir þetta og sérstaklega þær athugasemdir sem hafa komið fram frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna þess að hér er um mjög alvarlega hluti að ræða. Við viljum allra síst sjá það í dag í samfélaginu að einstaklingar þurfi að sjá á eftir heimilum sínum akkúrat í þessum fordæmalausu aðstæðum sem þeir bera enga ábyrgð á.