150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi að átta sig á því að á heimilunum býr fólk og það fer að heiman til vinnu í fyrirtækjum og stofnunum og víða í samfélaginu. Þegar við erum að tryggja að fyrirtækin geti lifað af og greitt laun erum við með óbeinum hætti að styðja við heimilin, við tekjur heimilisins, rekstur heimilanna og framfærslu heimilanna og fjölskyldna sem þar búa. Þetta verður ekki slitið í sundur. Það er algjörlega fráleitur málflutningur að slíta þetta tvennt í sundur. Ég spyr þegar hér eru kynntar til sögunnar aðgerðir til að hlúa t.d. að geðheilbrigðismálum: Heldur hv. þingmaður að það sé vegna fyrirtækjanna í landinu? Til hverra er verið að tala með félagslegum úrræðum í þeim aðgerðapakka sem hér er kynntur til sögunnar?

Auðvitað eru okkar markmið að forða því eftir öllum tiltækum ráðum sem við höfum við mjög erfiðar aðstæður að fólk fari á atvinnuleysisskrá. Þess vegna erum við núna að greiða með hlutabótakerfinu stóran hluta af launakostnaði fyrirtækjanna og það er akkúrat úrræði sem lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu eru að nýta sér í stórum stíl. Það má spyrja bara þessi fyrirtæki sem eru í vanda og eru í ferðaþjónustu (Forseti hringir.) hvort ríkið sé ekki að greiða launakostnað þeirra að verulegu leyti í gegnum hlutabótaleiðina. Svarið við því verður: Já. Önnur úrræði koma síðan þar til viðbótar.