150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra. Kjarni málsins er sá að við lögðum fram góðar tillögur. Í fjárlaganefnd kom ég með tillögu um sérstaka álagsgreiðslu til heilbrigðisstarfsfólks. Henni var tekið fálega en núna á að samþykkja hana. Við styðjum hana að sjálfsögðu. Ef menn ætla að kalla eftir samstöðu og samstarfi á fordæmalausum og erfiðum tímum eiga þeir að standa við þau orð, ekki snúa út úr og fella allar tillögur stjórnarandstöðunnar en koma svo með sömu tillögur í næstu atrennu frá sjálfum sér. Kannski er kjarni málsins sá að það er ekki sama hvaðan tillögurnar koma. Er það kannski kjarni málsins, hæstv. ráðherra?

Ég vil koma örstutt í lokin að stuðningslánunum sem eru kannski stærsta aðgerðin í þessum pakka, mikilvægt og jákvætt skref en þó einungis til lítils hluta fyrirtækja þegar við horfum á stærð hagkerfisins og veltuna. Þá langar mig einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra hvort stuðningslánin komi til með að ná til fleiri fyrirtækja, þ.e. meðalstóru fyrirtækjanna, í næsta aðgerðapakka. Þetta kemur allt frá ríkisstjórninni í einhverjum smáskömmtum sem er kannski ekki nógu skynsamlegt heldur.