150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugaverð taktík sem þingmaðurinn notar og hefur notað þennan þingveturinn og kannski lengur, að sjóða allt sem frá ríkisstjórninni kemur niður í tíu punkta. Það er ágætt út af fyrir sig að draga það saman en það er yfirleitt með neikvæðum formerkjum eða að það þurfi að gera meira og betur. Í sjálfu sér er ekkert og aldrei nógu gott sem er bara pólitík og skiptar skoðanir um það. Í ljósi þess að hann fór hér mikinn um opinber störf vil ég samt segja að ég get alveg verið sammála því að við þurfum að fjölga opinberum störfum og við þurfum einmitt líka að dreifa þeim um allt land. Dæmi um það eru hjúkrunarfræðingar og kennarar og ég veit ekki betur en að unnið sé hörðum höndum að því, m.a. er verið að auka við þá sem fara í nám í kennarafræðum og launa síðasta árið. Skýrslu var skilað til heilbrigðisráðherra fyrir fimm dögum um með hvaða móti væri best hægt að fjölga hjúkrunarfræðiplássum og reyna að aðlaga starfið, námsumhverfi og annað þannig að þar væri hægt að fjölga. Það er unnið að þessu en það er ekki bara hægt að setja peninga í eitthvað af því að við höfum tilfinningu fyrir því. Á stundum er skynsamlegt að við setjumst niður og reynum að ná utan um hlutina.

Ég heyri hvað þingmaðurinn segir, hann tekur undir að margt er gert og allt það. En mér finnst orðræðan ekki rétt, bæði þegar fyrsti aðgerðapakki kom og núna annar aðgerðapakki, að þetta séu bara fyrirtækjapakkar, ekki fyrir fjölskyldur eða heimili. Það er ekki nóg að segja að auðvitað skipti þetta heimilin máli, það skiptir gríðarlega miklu máli. Allar þær aðgerðir sem hafa verið settar fram, mjög fjölþættar, eru til að tryggja afkomu heimilanna, allt það sem við leggjum hér til, t.d. í nýsköpun og að búa til fjölbreyttari flóru sem við þurfum á að halda. Við höfum lent í því oftar en einu sinni að vera með öll eggin í sömu körfu og við þurfum að breyta því. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að það sé betra að setja peninga (Forseti hringir.) í það en að bæta við í atvinnuleysistryggingar eins og hann vill, þ.e. betra að fjölga störfum en ekki fólki á atvinnuleysisbótum?