150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hörð mótmæli Neytendasamtakanna hafa varla farið fram hjá hvorki okkur þingmönnum, sérstaklega okkur þingmönnum sem sitjum í hv. atvinnuveganefnd, né neytendum sjálfum þar sem samtökin m.a. staðhæfa að það sé ekki í boði að heimilin axli byrðar lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum séu einskis virði. Þau eiga væntanlega við ef sú staða skapast hjá þeim fyrirtækjum sem selja pakkaferðir að þau verði gjaldþrota. Neytendasamtökin vísa þarna í skýlausan rétt neytenda sem við samþykktum á Alþingi fyrir rétt rúmlega ári síðan með samþykkt þeirra laga sem hér um ræðir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það: Hvernig verður þessi skýlaus réttur neytenda varinn? Hæstv. ráðherra hefur farið aðeins yfir það í máli sínu en mig langar að fá skýrari svör og fá það enn frekar fram. Ef tryggingarfé hverrar ferðaskrifstofu er ákveðið af ráðherra, samanber 26. gr., hvernig er hægt að tryggja þennan skýlausa rétt sem Neytendasamtökin (Forseti hringir.) hafa í yfirlýsingu sinni og mótmælum bent á?