150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

kjaramál lögreglumanna.

[10:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur líkt og öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um það síðustu daga og vikur að ljósið í myrkrinu sé kannski sterk staða ríkissjóðs í þeim stormi sem við stöndum í núna, að það sé heppilegt. Þá má kannski velta því upp líka að það sé óheppilegt að á akkúrat þessum tímum séu þjóðhagslega mikilvægar greinar, jafnvel þjóðhagslega nauðsynlegar greinar, á þeim stað í kjarabaráttu sinni sem þær eru núna. Mig langar að nefna sérstaklega auglýsingu sem Landssamband lögreglumanna birti í vikunni með ákalli til landsmanna um að aðstoða og síðan þá staðreynd að hjúkrunarfræðingar felldu samning sinn í gær.

Í auglýsingu lögreglumannanna segir, með leyfi forseta:

„Laun lögreglumanna þau sömu og þau voru árið 2002.

Við lögreglumenn höfum reynt að eiga raunverulegar samræður við ríkið um kjör okkar í mörg ár.“

Þarna eru lögreglumenn að vísa til orða formanna allra ríkisstjórnarflokkanna sem verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir styðji kröfur lögreglumanna. Hvar birtist sá stuðningur í verki í þessari stöðu? Vissulega eru kjaraviðræður í gangi en launamálin eru órædd.

Er þetta birtingarmynd þess að kjarabarátta lögreglumanna sé ekki tekin nægilega alvarlega?

Hið sama má segja með hjúkrunarfræðinga. Ég spyr hæstv. ráðherra í ljósi þess hvað þetta hefur gengið lengi: Er mögulega að myndast einhver kergja sem veldur því að ekki næst saman og ónógur vilji til að mæta kröfum? Ég átta mig á flækjustiginu en ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra átti sig líka á mikilvægi akkúrat þessara hópa í stöðu mála í dag og ég spyr um forgangsröðun. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist beita sér fyrir hagsmunum þeirra hópa sem hafa verið samningslausir svo lengi. Hvernig sér hann fyrir sér að stjórnvöld standi við orð sín um að leiðrétta kjör hópa sem hafa lengi staðið höllum fæti gagnvart samanburðarhópum í launum akkúrat núna?