150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[12:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er alveg innilega sammála henni, þetta er það sem við eigum að stefna að. Við gerum okkur grein fyrir því að ekki er allt hægt en eiginlega er bara verið að krefjast lágmarksins. Við höfum ekki einu sinni náð því. Einstaklingar í hjólastólum hafa ekki lágmarksaðgang að mörgum opinberum stofnunum eða hjá sveitarfélögum. Við getum horft beint yfir götuna, til umboðsmanns Alþingis sem er í gömlu húsi eins og ég hef bent á. Þar rekst allt á.

Við gerum okkur grein fyrir því með ferðamannastaði að við getum ekki haft óhindraðan aðgang en lágmarkskrafan er sú að það sé reiknað með því að ferðamannastaðir geri þetta.

Annað í þessu sem mér finnst óþolandi varðar eftirlitsstofnanir. Ráðherra hlýtur að vera sammála mér í því efni. Hvernig er hægt að byggja upp rosalega flottan ferðamannastað með fullkomnum rampi fyrir hjólastóla og annað og fullkominni aðstöðu sem allir telja að eigi að gilda fyrir einstakling í hjólastól en svo kemur í ljós eftir dýrar framkvæmdir að ekki er hægt að nýta aðstöðuna? Breiddin til að fara ofan í pottana er kannski röng, hæðin líka. Það er ekkert pælt í því að þeir sem eiga að nota aðstöðuna geti notað hana. Þess vegna þarf að skerpa á eftirlitinu og það hlýtur að vera númer eitt, tvö og þrjú að þeir sem eiga að hafa eftirlit með því og sjá til þess að þessir einstaklingar geti nýtt sér slík úrræði sinni vinnu sinni almennilega, stundi hana bara og sjái til þess að þetta sé í lagi. Þetta er mannréttindakrafa. Þetta er í lögum og fatlaðir eiga þennan rétt. Ég held að ráðherra hljóti að vera innilega sammála.