150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þetta frumvarp. Það skiptir mjög miklu máli og er algjörlega í samræmi við það frumvarp sem var fjallað um á síðasta þingi er varðar skipta búsetu. Þarna er margt nýtt sem er mjög til bóta líka, t.d. samkomulag milli foreldra um einn leikskóla og einn skóla. Ég held að það sé lykilatriði því að þrátt fyrir góðan hug okkar foreldranna viljum við varla gera barninu það að þvælast milli landshluta aðra hverja viku og fara algerlega í skipt líf. Ég held að það sé þrátt fyrir allt ekki endilega í þágu hagsmuna barna.

Hér er gengið út frá þeirri meginreglu að það sé samstaða og það er mjög gott, enda getur meiri hluti foreldra verið í góðu samstarfi. Þá er líka gott að ekki sé hægt að dæma skipta búsetu og tala ég hér af minni reynslu úr mínu starfi, sem ég er í tímabundnu leyfi frá, í lögmennskunni. Það er stundum sérstakt að hægt sé að dæma sameiginlega forsjá þegar það er mjög djúpstæður ágreiningur, það hefur stundum orkað tvímælis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það af hverju ekki er hægt að leita réttar síns ef ágreiningur kemur upp. Þrátt fyrir mikinn kærleika milli foreldra og mikla samvinnu getur komið upp sú staða skyndilega að annað foreldrið neitar hinu um að fara í sumarleyfi. Þá er synd að ekki sé hægt að leita aðstoðar því að það er kannski ekki þörf á því að brjóta upp allt fyrirkomulagið varðandi skipta búsetu þrátt fyrir að það komi einhver snurða á þráðinn. Mér finnst miður að það sé nauðsynlegt að fara þá bara í einhliða uppsögn á samkomulaginu og (Forseti hringir.) brjóta í rauninni allt til grunna ef upp kemur örlítill ágreiningur.