150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem ég náði ekki að klára í andsvörum áðan um barnaréttarnefndina og þriðju valfrjálsu bókunina við mannréttindasáttmálann. Mér finnst það mjög kaldhæðnislegt að við séum með fulltrúa í barnaréttarnefndinni en leyfum ekki íslenskum borgurum að sækja álit til hennar. Þó var það voða mikið kappsmál að koma fulltrúa þangað, enda er það ágætisapparat til að vinna með og mjög nauðsynlegt, ég skil vel kappsmálið þess vegna. En þá skil ég ekki af hverju borgarar landsins mega ekki leita til nefndarinnar því að þegar allt kemur til alls þá eru börn með öll þau réttindi sem eru skilgreind í mannréttindasáttmálanum sjálfum. Barnasáttmálinn er síðan ákveðin viðbót við mannréttindasáttmálann því að það eru sérstök atriði sem þarf að huga að vegna þess aðstöðumunar sem börn búa við gagnvart kerfum varðandi réttindi sín samkvæmt mannréttindasáttmálanum sjálfum. Það þarf sérstaklega að huga að því að þau fái þau réttindi eins og allir aðrir hafa. Mér finnst svolítið áhugavert að það mál sé fast í nefnd enn og aftur því að meira að segja barnamálaráðherra studdi það þegar ég spurði hann um það í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir nokkru síðan.

Nú sjáum við þetta frumvarp sem tekur skref í áttina að því að uppfylla barnasáttmálann en samt vantar þessi augljósu atriði sem maður skilur ekki að séu ekki tekin með miðað við þá áherslu sem við höfum, á hinn bóginn lagt á að fara í þá átt. Við fengum fulltrúa í nefndina, það var stofnanaleiðin, fengum sæti og virðingu og ýmislegt svoleiðis á mjög mikilvægum stað varðandi mannréttindi í heiminum, en á hinn bóginn segjum við: Nei, fyrirgefið, börn á Íslandi mega ekki fara og leita álits hjá barnaréttarnefndinni, þó að við séum búin að koma því vel og kirfilega á framfæri að við styðjum vinnu þessarar nefndar með því að senda fulltrúa til hennar.

Hér útskýrði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir að við erum með mjög fjölbreytt fyrirkomulag í forsjár- og umgengnismálum. Það er sameiginleg forsjá, jöfn umgengni, skipt búseta og möguleg sambandsform þar sem er verið að skipta umgengni og lögheimili og forsjá barna á einhvern hátt ásamt því að taka verður tillit til sjónarmiða barnanna eins og er verið að bæta við núna á mjög skýran hátt og er mjög jákvætt. Þá velti ég fyrir mér hvort þessi síló sem farið er yfir í fylgiskjalinu, um forsjá hjá öðru foreldri, sameiginlega forsjá, skipta búsetu og jafna umgengni, séu nægilega sveigjanleg fyrir alla. Ef aðilar geta að mestu leyti uppfyllt skilyrðin fyrir sílóinu um skipta búsetu nema í einum, tveimur tilfellum þar sem þeir myndu vilja haga því öðruvísi, skemmir það þá allt samningsferlið sem slíkt? Er gert ráð fyrir því í forminu sem þarf að fylla út hjá sýslumanni að hægt sé að taka þá eiginleika sem fylgja skiptri búsetu en hafa líka eiginleika jafnrar umgengni, einhverja aðra eiginleika þessara sambúðar- og umgengnisforma?

Ég hlakka til þegar nefndin tekur þetta mál til umfjöllunar og hlakka til að sjá umsagnir sem það varða. Ég er því miður ekki í nefndinni sem fær þetta mál en hlakka til að sjá afgreiðslu nefndarinnar á málinu. Það lítur mjög jákvætt út og ég hlakka til að sjá umsagnir um það og samhengi við t.d. þriðju valfrjálsu bókun barnasáttmálans.