150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn eitt frumvarpið um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, þeirrar ágætu stofnunar, og felur þetta frumvarp í sér að einfalda mikið ýmsa lagabálka sem varða hana. Allt er þetta í samhengi við hið svokallaða kirkjujarðasamkomulag. Nú hef ég, eins og tveir hv. þingmenn á undan mér, haldið fleiri en eina og fleiri en tvær, vel hugsanlega þrjár, ræður um þetta efni. Ég ætla að reyna að þreyta ekki alla áhorfendur með því að endurtaka allt sem ég hef sagt, enda myndi það sennilega taka meira en korterið sem ég hef. Hins vegar verð ég að segja að ég er ekki frá því að ég styðji þetta frumvarp. Ég er bara ekki mjög hrifinn af því hvers vegna það er komið hingað inn, þ.e. forsendunum sem liggja að baki því að það er lagt fram, forsendunum á bak við allt þetta starf sem er í gangi í sambandi við það að halda ekki bara kirkjujarðasamkomulaginu lifandi heldur styrkja það enn þá meira í framtíðinni. Það finnst mér forkastanlegt, virðulegi forseti, mér finnst það óheiðarlegt. Við höfum átt umræður margoft í sambandi við það að verðið fyrir þessar jarðir er óendanlegt. Hv. þingmenn hafa aðeins karpað um það. Við munum eflaust karpa meira um það í framtíðinni og það hvers virði Þingvellir eru og hvers virði landið undir byggingum í Garðabæ er og þess háttar. Hvers virði var það 1907? Ég veit það ekki. Það sem ég veit er að það var ekki meira en fjöldi atóma í alheiminum í krónum talið, sú tala er lægri en verðið sem íslenska ríkið hyggst greiða, vegna þess að sú tala er óendanleg eins og hefur verið farið yfir margoft.

Ég er strax byrjaður að endurtaka mig og ætla að reyna að koma mér að efni frumvarpsins. Það felur í sér að fella brott ansi margt úr lögum, sem ég er almennt hrifinn af ef það er ekki með því betra. Ég á það sameiginlegt með mörgum Sjálfstæðismönnum, alla vega eins og þeir tala, að ég er oft hrifnari af því að taka eitthvað úr lögum heldur en að setja eitthvað í lög. Hér er ýmislegt fellt brott, ég ætla svo sem ekki að telja það allt upp en það er t.d. jöfnunarsjóður og héraðssjóðir og ýmislegt fleira. En það sem vakti sérstaklega athygli mína er 2. gr. frumvarpsins. Þar er II. kafli laga um Kristnisjóð, 18.–23. gr., felldur brott. Það er svo sem ekkert rosalega áhugavert, í þeim kafla segir að stofna skuli sjóð er kallist Kristnisjóður, fjallað um framlög og að launa aðstoðarþjónustu presta, guðfræðinga og o.s.frv. Ágætisbörn síns tíma en eiga auðvitað hvergi heima í lagabókstaf í nútímasamfélagi að mínu mati. En það sem er áhugavert við þetta allt saman er ekki í sjálfu sér hvað er fellt brott heldur hvað stendur eftir. Það er nefnilega þannig að lög um Kristnisjóð, innihalda, eða innihéldu, 23 greinar. Hér er lagt til að 18.–23. gr. verði felldar brott. Gott og vel, ljómandi gott. Þar áður höfðu 1.–4. gr. verið felldar brott og 6.–17. gr. Eftir stendur því aðeins ein grein. Það er hin alræmda og hin vonda 5. gr. laga um Kristnisjóð sem við höfum rökrætt hér áður og reyndar hefur sá sem stendur lagt fram frumvarp um að fella þá grein brott. Það er sú grein sem gerir sveitarfélögunum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Það vekur furðu mína að ráðuneytið eða ráðherra hafi farið í þessa vinnu, skoðað þessi lög og hugsað með sér: Best að taka út allt þetta en við skulum halda inni þessu forneskjulega ákvæði, sem er að mínu viti ómálefnalegt og óskiljanlegt með öllu. Það eru til einhverjar sögulegar skýringar á því hvers vegna þetta var góð hugmynd á frumstæðari og fátækari og verri tímum en það er engin ástæða til að hafa ákvæðið í löggjöf í dag. Ég geri því fastlega ráð fyrir því að í alla vega einu minnihlutaáliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar verði tillaga um að fella lögin brott í heild sinni, eins og okkur Pírötum er svo annt um að gera og sumum Sjálfstæðismönnum, alla vega af og til.

Það er ekki hægt að ræða þessi mál án þess að tala um samband ríkis og kirkju. Þetta mál varðar samband ríkis og kirkju. Það eru margir vinklar á því og einn af þeim er kirkjujarðasamkomulagið. Vel á minnst, það er í sjálfu sér rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson og fleiri myndu segja að kirkjujarðasamkomulagið stendur í sjálfu sér ekki og fellur með 62. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna, eins og hún er kölluð þar. Það er bara samningur sem ríkið gerir við einhverja stofnun. Allt í lagi, segjum að svo sé rétt, en það breytir því ekki að sá samningur var augljóslega gerður til þess að svipta komandi kynslóðir möguleikanum á því að aðskilja ríki og kirkju með fullum hætti, með því að afnema hina sérstöku stjórnarskrárlegu vernd og þar með hina sérstöku lagalegu fjárhagslegu vernd.

Þetta er óheiðarleikinn sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti. Yfirvöld láta eins og þau séu að gera eitthvað sem er allt í góðu vegna þess að það stenst samningsrétt og það stenst löggjöfina í einhverjum tilgangi sem er ekki sagður upphátt. Það er augljóst að þetta var tilgangurinn og það er augljóst að stuðningurinn við hið hábölvaða kirkjujarðasamkomulag kemur úr þeirri átt. Fólk vill einfaldlega halda þessu sambandi til streitu, jafnvel þó að stjórnarskránni sé breytt, jafnvel þó að löggjöfin sé einfölduð. Nú vonar sá sem hér stendur að einhver hafi alla vega móðgast yfir þessu vegna þess að annars er hætta á því að þetta hafi ekki verið skilið rétt.

Ég hef áður nefnt í ræðu að mér finnst ekki við hæfi í nútímasamfélagi að við séum með ríkiskirkju eða þjóðkirkju eða þjóðtrú eða skilgreindar trúarkennisetningar sem einkenna það þjóðríki eitthvað meira en annað. Af nákvæmlega sömu ástæðu, engri annarri, finnst mér ekki við hæfi að þingmenn sem eiga að búa til löggjöf fyrir alla borgara landsins án tillits til trúarskoðana þeirra séu að karpa um einstaka guðfræðileg atriði eða kennisetningar tiltekinna trúarsafnaða. Vandinn er að í stjórnarskrá lýðveldisins, sem við hér störfum samkvæmt, er ákvæði um að ákveðið trúfélag sem stendur fyrir tilteknar kennisetningar skuli njóta sérstakrar verndar. Ef ég er þingmaður og ég er á móti þessu ákvæði, hvaða vald hef ég til að breyta því? Jú, ég verð að tala um kennisetningarnar sjálfur. Ég verð að fara út í guðfræðileg atriði og reyna að sannfæra bæði kjósendur og aðra þingmenn um að þetta sé röng trú, að trúarbrögðin og kennisetningarnar sem eru verndaðar sérstaklega í stjórnarskránni séu rangar, efnislega rangar og hugsanlega siðferðilega rangar, eins og t.d. fordómar sem birtast gagnvart konum í Nýja testamentinu, ekki Gamla testamentinu heldur Nýja testamentinu. Það er ekki mér að kenna að þetta standi þarna og það er ekki hægt að skamma mig fyrir að benda á það þótt reyndar sé rík hefð fyrir slíku innan margra trúarsafnaða eins og við þekkjum, því miður. Ég vil helst ekki gera það en velti fyrir mér hvort það sé eina leiðin.

Ef hér er sagt að við eigum ekki að hafa þjóðkirkju eða þjóðtrú eða trúar- eða lífsskoðanaafstöðu á þeim einföldu forsendum að þetta sé löggjafarsamkunda allrar borgaranna þá kemur talið um það að meiri hluti Íslendinga telji sig kristinn, telji sig til tilheyra þeim trúarbrögðum, sem er eflaust satt, gefum okkur það alla vega. Hvaða ráð hefur maður þá? Jú, að sannfæra meiri hlutann um að hann hafi rangt fyrir sér og gera hann að minni hluta. Er það rétta leiðin að þingmenn standi hér í þingsal og taki fyrir djúpstæða trú fólks efnislega, fari út í hana, sýni fram á að hún standist ekki alveg, standist ekki alveg staðreyndir, standist ekki alveg sögulega skoðun og standist bara ekki einu sinni að hugsa um það? Mig langar ekkert þangað á þessum vettvangi hér. Ég vil ólmur gera það í útvarpsviðtali eða skrifum en ekki hér, virðulegi forseti, vegna þess að það er ekki við hæfi. Sú umræða á ekki heima hérna. Það sem á heima hérna er löggjöf fyrir alla borgarana jafnt, án tillits til t.d. trúarsannfæringar, kyns, kynferðis, án tillits til flestallra þátta.

Þá vil ég að lokum frábiðja mér það að umræðan um að aðskilja ríki og kirkju og gera yfirvöld í nútímasamfélagi veraldleg og láta í friði allar skilgreiningar um trúarsannfæringar þjóðríkis sé einhvern veginn árás á kristni eða kristna menn. Það er í skásta falli ómeðvitaður útúrsnúningur. Ég skal gera þeim þann greiða að telja hann ómeðvitaðan, ég held reyndar að í sumum tilfellum sé hann meðvitaður en við skulum bara reyna að ætla fólki það besta, leyfa fólki að njóta vafans og allt það. En þegar kemur að trúarbragðaumræðu almennt vill fólk að sá sem er ósammála sé það af illum hug, það vill það. Það vill vera móðgað og það vill vera sárt. Það vill taka hlutina nærri sér til þess að geta síðan snúið sér við og bent á þann sem dirfðist að gagnrýna trúarkennisetningarnar, rétttrúnaðinn, og sagt: Nei, þessi sannleikur er þér að kenna. Það er þér að kenna persónulega að þú trúir því sem þú trúir eða trúir ekki því sem þú trúir ekki. Þetta, virðulegi forseti, er ekkert minna en hornsteinn abrahamískra trúarbragða í gegnum tíðina, að það sé syndugt að trúa ekki, að það sé dyggð að trúa. Ef hv. þm. Jón Þór Ólafsson segði algjöra þvælu við mig og ég sæi að það væri algjör þvæla — það hefur aldrei gerst svo ég viti til en gefum okkur (Gripið fram í.) að sá hugsanlegi raunveruleiki blasti við — myndi ég segja: Hv. þingmaður, ég bara trúi þér ekki alveg. Er það mér að kenna að staðreyndir blasa við mér eins og þær gera? Nei, virðulegi forseti. Það er ekki dyggð að trúa og það eru ekki synd að efast, þvert á kennisetningar evangelískrar lúterskrar trúar.

En núna er ég að sleppa mér í efnisatriðum þeirrar ágætu stofnunar. Mér finnst rangt að fara of langt þangað og byggi málflutning minn á þeirri sannfæringu og lýk því máli mínu hér en býst fastlega við að umræðan haldi áfram þar til íslenska ríkið, íslensk stjórnarskrá, löggjafarsamkundan og allt sem tilheyrir yfirstjórn íslenska ríkisins verður veraldlegt með öllu. (Gripið fram í: Amen.)