150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[15:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, annars vegar fyrir frumvarpi á þskj. 1221, mál nr. 713. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu. Hins vegar mæli ég fyrir frumvarpi á þskj. 1222, mál nr. 714. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu. Frumvörpin eru bæði samin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Í samræmi við þær áherslur hefur í ráðuneyti mínu verið útbúin þriggja ára aðgerðaáætlun sem lýtur að einföldun regluverks. Framgangur aðgerðaáætlunarinnar er forgangsverkefni í ráðuneytinu og hefur verið unnið ötullega að verkefninu í vetur. Í samræmi við fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar hef ég fellt brott 1.242 reglugerðir og tvo lagabálka auk þess að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna.

Þau frumvörp sem mælt er fyrir í dag eru liður í öðrum áfanga fyrrgreindar aðgerðaáætlunar. Frumvörpin eru afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, svo sem Matvælastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Bændasamtök Íslands og undirsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og fleiri. Með frumvörpunum eru lagðar til fjölmargar og mikilvægar breytingar á núgildandi lögum á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungsveiði. Breytingarnar eiga það sammerkt að stuðla að einföldun regluverks og stjórnsýslu.

Fyrst mun ég víkja að þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði. Lagt er til að felldir verði brott 22 lagabálkar í heild sinni. Um er að ræða lög sem eru úrelt eða hafa ekki neitt efnislegt gildi lengur. Sem dæmi má nefna að lagt er til að fella brott lög um ostrurækt, en um ostrurækt fer samkvæmt lögum um skeldýrarækt, lögum um matvæli auk ákvæða í lögum um náttúruvernd. Það er því ekki þörf á sérstökum lögum um ostrurækt. Einnig er lagt til að fella brott lög um að miða sektir fyrir landhelgisbrot við gullkrónur en slíkum viðmiðunum hefur ekki verið beitt frá árinu 1977.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum til að einfalda stjórnsýslu. Lagt er til að felld verði brott leyfisskylda fyrir veiðar með dragnót en Fiskistofa hefur gefið slík leyfi út. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að fella brott heimild í lögum fyrir ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net. Þess í stað er lagt til að fjallað verði um veiðarnar í reglugerð án þess að sérstök leyfisveiting komi til hverju sinni. Með þessu móti má fækka þeim leyfum sem gefin er út af Fiskistofu en útgáfa þessara leyfa hefur verið í höndum hennar.

Einnig er í frumvarpinu lagt til að leggja niður úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla. Lagt er til að þess í stað verði heimilt að kæra ákvarðanir Fiskistofu samkvæmt lögunum til ráðuneytisins. Úrskurðarnefnd þessi hefur haft fremur fá mál með höndum, einkum eftir að svonefndar bakreikningsrannsóknir Fiskistofu lögðust af. Árlegur kostnaður af störfum nefndarinnar hefur einnig verið takmarkaður eða 2–3 milljónir á ári undanfarin ár. Meginástæða þess að lagt er til að nefndin verði lögð niður er hversu fá mál berast henni. Þykir eðlilegt að verkefni hennar verði færð til ráðuneytisins.

Þá er lagt til að einfalda umsýslu skyndilokana með þeim hætti að Fiskistofa öðlist þá valdheimild sem Hafrannsóknastofnun hefur haft fram til þessa til að banna tilteknar veiðar tímabundið með skyndilokunum. Nánast allar skyndilokanir byggjast á stærðarmælingu eftirlitsmanna Fiskistofu og felst því hagræði í því að skyndilokanir séu í höndum þeirrar sömu stofnanirnar. Rétt er að taka fram að það verður áfram í höndum Hafrannsóknastofnunar að gera tillögu til ráðherra um viðmiðunarmörk við veiðar á smáfiski.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að fella brott skyldu Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur. Ástæða þess er sú að nú er verið að ljúka rafvæðingu afladagbóka og óþarft er að Fiskistofa útvegi skipum afladagbækur. Þá er verið að þróa smáforrit fyrir skil á aflaupplýsingum sem stjórnendur fiskiskipa getað nálgast án mikilla vandkvæða. Með þessu er gert ráð fyrir að öll aflaskráning og skil verði rafræn. Þar með verður notkun pappírsbóka hætt og þar af leiðandi þarf Fiskistofa ekki lengur að standa fyrir prentun þeirra.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til smávægilegar einföldunartillögur á lögum um fiskeldi og þar er helst að nefna tillögu um að draga úr skýrsluskilum hjá fiskeldisfyrirtækjum sem framleiða minna en 20 tonna á ári. Að áliti Matvælastofnunar er ekki talin þörf á jafn ítarlegum og jafn tíðum skilum hjá þessum aðilum og hjá stærri aðilum í fiskeldi sem framleiða margfalt það magn.

Að endingu er lagt til í frumvarpinu að stjórnsýslumeðferð veiðitækja sem notuð hafa verið erlendis verði einfölduð. Í núgildandi lögum er mælt fyrir um skylt sé að sótthreinsa veiðitæki sem notuð hafa verið erlendis áður en þau koma inn í landið. Flest veiðitæki koma til landsins um Leifsstöð en einnig við aðrar flughafnir og innflutningshafnir. Matvælastofnun hefur sinnt eftirliti með þessari framkvæmd og gefið leiðbeiningar. Auk þessa hafa starfsmenn Matvælastofnunar sótthreinsað nokkra tugi veiðitæki á hverju ári. Í frumvarpinu er lagt til að skylt verði að sótthreinsa veiðibúnað í síðasta lagi áður en hann er notaður til veiða í íslensku veiðivatni. Þá er lagt til að Matvælastofnun geti falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd aðgerða í samræmi við reglur sem stofnunin setur. Með þessu verklagi er leitast við að einfalda framkvæmd þessarar sótthreinsunar um leið og aukin ábyrgð er færð í hendur veiðimannanna sjálfra og umráðamanna veiðistaða sem eiga hagsmuna að gæta af vörnum gegn fisksjúkdómum.

Því næst verður vikið að þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla og landbúnaðar.

Fyrst má nefna að með frumvarpinu er lagt til að felldir verði brott 12 lagabálkar í heild sinni. Að stærstum hluta er hér um að ræða lög sem eru úrelt eða hafa þjónað tilgangi sínum og rétt þykir að fella brott. Æskilegt þykir að lög sem ekki eru til neinna þarfa verði felld brott úr lagasafninu enda er það til þess fallið að efla réttarvissu. Á meðal hinna 12 lagabálka sem lagt er til að felldir verði brott eru lög um flokkun og mat á gærum og ull, nr. 57/1990. Ekki þykir ástæða til þess að hafa í gildi sérlög um málefnið. Svonefnd kærumatsnefnd sem skal starfa samkvæmt lögunum hefur ekki starfað um árabil. Að sama skapi er ekki þörf á sérstakri ullarmatsnefnd sem er ætlað að úrskurða um ágreining um ullarmat. Áhersla er lögð á að það sé í höndum framleiðenda að tryggja gæði framleiðslu sinnar án atbeina hins opinbera. Í ljósi athugasemda hagsmunaaðila þess efnis að mikilvægt væri að koma á fót breyttu fyrirkomulagi áður en lögin falla brott var tekin ákvörðun um að seinka brottfalli laganna til 1. nóvember 2021 sem gefur rúman tíma til þess að vinna að breyttri framkvæmd.

Í frumvarpinu eins og það var kynnt á samráðsgátt stjórnvalda var lagt til að lög um gæðamat á æðardúni, nr. 52/2005, verði felld brott í heild sinni. Samkvæmt lögunum skal allur æðardúnn metin og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun en áður en kemur til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings skal liggja fyrir gæðamat dúnmatsmanns með vottorði. Ástæða þykir til þess að fela framleiðendum sjálfum að tryggja gæði framleiðslunnar án atbeina hins opinbera. Í opnu samráðsferli frumvarpsins bárust athugasemdir frá hagsmunaaðilum sem settu sig upp á móti hugmyndinni. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að falla frá tillögu um brottfall laga um gæðamat á æðardúni með frumvarpinu.

Til viðbótar við þá tillögu að leggja niður ullarmatsnefnd og gærumatsnefnd er lagt til að lagðar verði niður markanefnd, yrkisréttarnefnd og sauðfjársjúkdómanefnd. Allar nefndirnar eiga það sameiginlegt að lítil virkni hefur verið í þeim síðustu ár en aðeins örfá erindi berast þeim. Breytingarnar eru lagðar til í því skyni að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni. Verkefni sauðfjársjúkdómanefndar og yrkisréttarnefndar verða flutt til Matvælastofnunar.

Jafnframt er lagt til með frumvarpinu að afnumin verði milliganga ráðuneytisins í fjölmörgum tilvikum auk staðfestingar ráðherra og eru breytingar gerðar í því skyni að gera stjórnsýslu skilvirkari. Þannig er m.a. lagt til að Matvælastofnun verði falið að sinna ýmsum formbundnum verkefnum sem áður hafa verið unnin ráðuneytinu. Breytingarnar eru gerðar í því skyni að stytta boðleiðir þar sem núverandi milliganga ráðuneytisins þyki til þess fallin að flækja stjórnsýsluna.

Lagt er til að starfsleyfi á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um matvæli verði gefin út án tímabindingar. Með breytingunni þurfa matvælafyrirtækja ekki að sækja um endurnýjun á starfsleyfum sínum vegna óbreytts reksturs með tilheyrandi kostnaði heldur nægir að sækja um starfsleyfi í eitt sinn.

Auk þess er lagt til með frumvarpinu að stjórnsýsla við merkingar sauðfjár verði einfölduð. Í því sambandi er lagt til að látið verði af skyldu til að eyrnamarka lömb en til staðar verði heimild í lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. til að eyrnamarka lömb. Sú venja er gömul hér á landi að sauðfé sé eyrnamarkað þannig að unnt sé að draga það í sundur til hjarðar eftir mörkum. Með nýjum tegundum merkinga, plötumerkjum, er ekki sama þörf og áður á eyrnamörkum eða brennimarki. Með breytingunum er lagt til að sett verði í vald einstakra bænda að ákveða hvort þeir eyrnamerki fjárstofn sinn. Líkt og áður sagði er lagt til að markanefnd verði lögð af en með breytingunum verða ákvarðanir markavarða endanlegar. Auk þess er lögð til heimild til að fela öðrum aðila, Bændasamtökum Íslands, að hafa umsjón með samræmingu og gerð nýrra markaskráa og upptöku nýrra marka.

Lagt er til með frumvarpinu að felld verði brott starfsleyfisskylda matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar og eru með gilt rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi vegna frumframleiðslu. Með frumframleiðslu er átt við eldi fiska fram að slátrun. Þar sem framleiðsla matvæla við slátrun og frekari meðferð er starfsleyfisskyld skulu slíkir aðilar þó hafa starfsleyfi til slátrunar og vinnslu. Breytingin felur í sér tillögu að einföldun fyrir matvælafyrirtæki sem starfrækja fiskeldisstöðvar þannig að rekstrarleyfi verði ígildi skráningar hjá Matvælastofnun og íþyngjandi krafa um útgáfu starfsleyfis falli niður vegna þess þáttar starfseminnar sem fellur undir frumframleiðslu.

Með frumvarpinu er lagt til að skipunartími verðlagsnefndar búvara verði lengdur úr einu ári í fjögur ár í því skyni að gera störf nefndarinnar markvissari og skilvirkari í stað þess að endurskipa þurfi í nefndina árlega eins og nú er.

Að lokum er lagt til að felld verði brott tilkynningarskylda innflytjenda og framleiðanda fóðurs innan EES-svæðisins að undanskildu lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukaefnum og forblöndun þeirra. Tilkynningarskyldan helst hvað varðar innflutning og framleiðslu á áburði og sáðvöru, sem og öllu fóðri sem flutt er inn frá ríkjum utan EES-svæðisins. Með breytingunni verður eftirlit með þessum tilteknu fóðurvörum frá ríkjum innan EES-svæðisins einfaldað og jafnframt mun breytingin leiða til einföldunar og minna umfangs á vinnu innflytjenda við innflutning á fóðri þannig að innflytjendum verður ekki gert að skrá fóður hjá Matvælastofnun né tilkynna um allar sendingar sem berast til landsins. Gert er ráð fyrir að áhrifin verði sambærileg hjá innlendum framleiðendum. Með breytingunni færist áherslan frá skjalaeftirliti yfir í markaðseftirlit með fóðri og fóðurfyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið hér meginefni beggja frumvarpa og vil að öðru leyti vísa til þeirra greinargerða sem fylgja umræddum frumvörpum en þar eru að sjálfsögðu fjallað mun ítarlegar um efni þeirra.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.