150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[16:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Önnur góð spurning frá hv. formanni utanríkismálanefndar. Ég get tekið undir það tvímælalaust að við þurfum að fylgjast betur með því hvernig þessi mál eru unnin og útfærð því að þegar útfærslan fyrir Ísland var samþykkt árið 2018, vel að merkja, herra forseti, 2018, þá hefði þingið eflaust mátt gera meira til að bregðast við og laga aðkomu Íslands að aðstæðum hér. Ég vil þó geta þess að ég var ekki að fullyrða að það hefðu verið mistök hjá Íslandi að taka þátt í markmiðinu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég held að það sé mikilvægt markmið en aðferðirnar sem notaðar hafa verið til þess og birtast ekki hvað síst í því frumvarpi sem við ræðum nú eru kolrangar. Ég held að þingmenn allir ættu að líta til hvatningar hv. formanns utanríkismálanefndar um mikilvægi þess að við fylgjumst með framkvæmd alþjóðasamninga og hvaða aðferðir eru notaðar til þess að uppfylla þá. Árið 2018, þegar útfærslan á Parísarsáttmálanum var samþykkt hér, var einfaldlega ákveðið að elta Evrópusambandið og aðferðir þess. Og það leit ekkert til hagsmuna Íslands þegar það útlistaði þær aðferðir. Við þurfum í öllum málum, hvort sem það eru orkupakkar eða viðbrögð við umhverfisvá, að meta hvernig við getum sem best leyst hlutina á Íslandi en ekki elta Evrópusambandið í blindni því að það lítur til einhvers allt annars en hagsmuna Íslands og þeirra aðferða sem virka best.