150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Örfáar pælingar varðandi þetta mál. Ég sakna þess, ég hef ekki fundið það í frumvarpinu, að sjá upplýsingar um hvaða magn er verið að tala um. Hvað er verið að nota mikið af þessum vörum sem hér á að banna eða koma í veg fyrir að séu notaðar? Og þá um leið að setja það í samhengi við ágæta ræðu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt hér um magnið sem kemur frá Íslandi í hafið miðað við heildarmyndina, hvað kemur mikið frá þessum helstu mengunarþjóðum heims? Það er ágætt að setja þetta í samhengi. Ég er ekki að gera lítið úr því að við þurfum að vanda okkur og hugsa vel um umhverfið, ekki misskilja það, en ég hugsa að það sem hér er á ferðinni skipti mjög, mjög litlu máli í stóra samhenginu. Ég velti fyrir mér, hæstv. ráðherra kom inn á það í lokaorðum sínum, hvort við höfum gefist upp á því í rauninni að kenna fólki að ganga vel um umhverfið, hvort menn hafi gefist upp á því að kenna fólki að nota hluti eins og plastpoka eða plastglös og þess háttar. Ég vil líka velta því upp hvort ekki hafi komið til tals að reyna að hafa einhverja jákvæða hvata fyrir þá sem endurnota eða endurnýta þessar einnota umbúðir, sem margar hverjar eru margnota í rauninni eins og plastpokarnir, þeim sé umbunað með einhverjum hætti t.d. í verslunum. Ég velti því líka fyrir mér hvort verslanir sem selja burðarpoka séu að hagnast á því eða hvort þeir séu seldir á kostnaðarverði eða undir kostnaðarverði. Ég þekki það ekki, viðurkenni það bara. Það væri nær að verðlauna þá sem nota slíkar umbúðir aftur og aftur.

Síðan rek ég augun í það, hæstv. forseti, í samráðskaflanum að það komu fram athugasemdir, m.a. að verið sé að innleiða málið hér áður en það er tekið upp í EES-samninginn. Miðað við efni frumvarpsins velti ég fyrir mér hvers vegna það er gert. Þá kemur líka fram að umsagnirnar hafi beinst að því að þetta gildi einungis um ákveðnar plastvörur. Ef hæstv. ráðherra gæti upplýst um hvað þarna var á ferðinni væri það gott. Það er svolítið sérstakt að verið sé að taka út ákveðnar vörur. Svo er náttúrlega mikilvægt að vita hvað kemur í staðinn, hvort menn hafi hugsað það. Margt af því sem hefur verið boðið upp á til þessa er algerlega ónothæft.

Síðan get ég ekki sleppt því að minnast á það sem kemur fram á bls. 9, að það megi búast við að þessari lagasetningu fylgi aukin verkefni hjá Umhverfisstofnun vegna eftirlits með plastvörum á markaði og gert sé ráð fyrir að aukin fjárframlög til stofnunarinnar muni mæta þeim kostnaðarauka. Hvað á þetta að þýða? Það er verið að auka eftirlit og eru þessi framlög trygg, eru þetta framlög sem koma beint úr ríkissjóði eða framlög sem leggjast á fyrirtækin sem framleiða eða flytja inn eða eru notendur að þessum vörum? Þarna er vinstri stjórnin sem hér ræður öllu að hafa vit fyrir fólki og, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti á áðan, að stýra neyslunni og Sjálfstæðisflokkurinn eltir þetta alveg eins og (Gripið fram í.) — ég segi ekkert hvað ég er að hugsa. Nær væri að horfa á þetta jákvæðum augum og hvetja til þess að þessir hlutir séu nýttir betur.

Við eigum ekki að vera hrædd við að taka umræðuna um það hvort þessi aðferð sé betri en önnur, hvort rétt sé að ganga þessa leið eða fara aðra. Við eigum bara að virða það að skiptar skoðanir eru um þessi mál eins og flest önnur. En ég held og ég hef talað fyrir því margoft að vænlegra sé að reyna að verðlauna eða hvetja fólk í stað þess að reyna að hafa vit fyrir því eins og hér virðist vera gert. En það er líklega erfitt þegar við erum í þeirri stöðu í dag að vera með ríkisstjórn sem telur sig þurfa að hafa vit frekar en að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að koma með lausnir og bjarga sér.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um það, m.a. hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, að hvetja til þess að farið sé af stað í nýsköpunarstarf á Íslandi til að finna nýjar leiðir til þess að búa til umbúðir eða áhöld sem við getum notað sem eru jafn nýtanleg og plastið. Við megum heldur ekki ganga þá leið að búa til eitthvað sem er á endanum jafnvel verra en plastið og hefur meiri og verri umhverfisáhrif.