150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í dag fögnum við í Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands 20 ára afmæli. Flokkurinn var stofnaður á þessum degi árið 2000 af fjölda fólks sem vildi láta drauminn rætast um að vinna saman að sameiginlegum hugsjónum jafnaðarmanna en láta ekki ágreining sundra. Við hefðum auðvitað viljað halda upp á afmælið með talsvert öðru sniði, safnast saman og halda gleðilegan dag en viljum laga okkur að þeim skrýtnu tímum og aðstæðum sem við búum við og sýna auðmýkt gagnvart því flókna verkefni sem bíður okkar allra í þágu Íslands og þjóðarinnar.

Samstaða, æðruleysi og samábyrgð fólksins í landinu ásamt þekkingu vísindamanna hefur gert okkur kleift að ná tökum á veiruskrattanum sjálfum en okkar bíður hins vegar mjög flókið verkefni að lágmarka efnahagslegan skaða, koma atvinnulífinu af stað og vernda fólk og heimili landsins. Þar er mikilvægt að hafa grunnhugsjónir jafnaðarmennskunnar að leiðarljósi, félagslegt réttlæti og ábyrga efnahagsstefnu. Það þarf efnahagslegan stöðugleika og mikla atvinnuþátttöku til að ýta undir öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem getur þolað utanaðkomandi áföll en félagslegt réttlæti er jafnframt forsenda þess að það sé hægt, til þess að allir geti þroskað hæfileika sína og nýtt þá í þágu sjálfs sín, samfélagsins og komandi kynslóða. Fyrir utan auðvitað að félagslegt réttlæti er göfugt markmið í sjálfu sér.

Samfylkingin mun því halda áfram að leitast við að fylkja saman fólki og knýja fram breytingar til réttláts samfélags, sækja umboð til fólksins í landinu svo við getum komið málefnum okkar og hugmyndum í framkvæmd. (Gripið fram í: Til hamingju með afmælið.)