150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að taka Öxi sem dæmi. Þar er ekki áætluð mjög mikil umferð. Hún var árið 2018 220 bílar á dag. Styttingin er hins vegar á bilinu 60–70 km. Ef það eru 100 kr. á kílómetrann þá er ávinningurinn upp á 6.000–7.000 kr. fyrir utan styttinguna í tíma (Gripið fram í.) Hvað er hv. þingmaður tilbúinn að greiða fyrir það sem hlutfall af þessari upphæð? Hvað heldur hann að það séu háar fjárhæðir, þegar hægt er að nota þennan veg til að stytta, sem þetta myndi spara til að mynda í flutningum fyrir þá sem eiga ekki leið niður á firðina heldur upp á Hérað eða frá Héraði, að geta stytt þessa leið um þetta? Það er ávinningurinn og það þarf að skipta ábatanum milli notandans — það sé ávinningur af því að fara þessa leið — og þess sem tekur áhættuna að fara í framkvæmdirnar. Í því felst þetta módel (Forseti hringir.) alveg eins og Hvalfjarðargangamódelið.