150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski þess vegna sem ég tala fyrir þessari leið, að fara í einkaframkvæmd algerlega, þannig að ef einkaaðilar geta séð hag sinn í því að ráðast í svona mikla framkvæmd þá myndum við leyfa þeim það. En þetta er verkefnið okkar. Ég tel Sundabraut vera mikilvæga vegabót en alveg eins og ég sagði áðan ekki þá mikilvægustu. Ég forgangsraða borgarlínunni enn mun hærra en Sundabraut enda skiptir það miklu meira máli fyrir allt umferðarflæðið á höfuðborgarsvæðinu sem slíkt.

Tökum sem dæmi Seyðfirðinga sem segjast ekki komast til læknis hluta af árinu. Við getum auðvitað ekki sett Sundabrautina í samhengi þar og sagt: Heyrðu, þú kemst aðra leið. Fólkið á Vesturlandi kemst vel til höfuðborgarinnar um nokkuð góða vegi þó að vissulega megi bæta mjög veginn á Kjalarnesi og ég veit að hæstv. samgönguráðherra er að vinna í því, en þá er það samt sem áður þannig að við búum við ágætisvegakerfi. En hitt getur bara verið umhverfisvænna, að ég tel, og hagkvæmara að ráðast í þessa leið. Þess vegna er ég að mæla fyrir þeirri leið sem ég tala fyrir, þ.e. einkaframtakinu í nákvæmlega þeirri framkvæmd. Ég er ekki að segja að það sé lausnin á öllu þegar kemur að samgöngumálum okkar, en mér fyndist mjög spennandi að huga sérstaklega að þessari dýru og langþráðu framkvæmd í þeim efnum.