150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar fjármögnun, þegar okkur hefur tekist það góða markmið að afnema olíu- og bensíngjald með því að fara í hrein og klár orkuskipti í samgöngum, þá bíð ég spenntur eftir niðurstöðu starfshóps sem fjármálaráðuneytið hefur skipað og er að vinna að því hver besta leiðin sé. Ég hef heyrt alls kyns hugmyndir í því. Ég sé kosti og galla við fullt af hugmyndum. Ég sé marga kosti við kílómetramælingarhugmynd eins og hv. þingmaður nefndi. Það eru líka gallar við hana. Það eru alls kyns leiðir til. Við erum ekki fyrsta landið í heiminum sem fer þessa leið. Ég legg mikið upp úr því að horft sé til þess hvernig farið hefur í öðrum löndum. Ég veit til þess að verið er að gera það. Ég mun án efa hafa meiri skoðun á þessu þegar ég er búinn að skoða þá vinnu sem hópurinn skilar af sér, og vonandi sem fyrst. Ég get talað mig út um mínar hugmyndir og mér finnst að taka þurfi tillit til ýmissa sjónarmiða hvað þetta varðar en er opinn fyrir sem sanngjarnastri og skilvirkastri leið. Ég vona, forseti, að hv. þingmaður erfi það ekki við mig þó að ég fari ekki í meiri smáatriðum út í þetta núna.

Hvað varðar forgangsröðunina kemur skýrt fram í frumvarpinu að þessar framkvæmdir eru að meginstefnu valdar á grundvelli umferðaröryggis og byggðasjónarmiða, auk þess sem lögð var áhersla á það í öllum tilvikum að vegfarendur hefðu val um aðra leið. Ég treysti því að við vinnu við forgangsröðun í samgönguáætlun, þar sem yfirlýst stefna er að hafa öryggissjónarmiðin ásamt fleiri sjónarmiðum í forgrunni, þá hafi það verið gert.

Ég kem kannski örlítið betur inn á það í næsta andsvari.