150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við hv. þingmenn erum sammála um að til lengri tíma litið er auðvitað mikilvægt að bregðast við stöðu ríkisrekna miðilsins á auglýsingamarkaði. En mér finnst mikilvægt samt sem áður að það sé skýrt að hér vorum við þó að gera tillögu um ákveðna útfærslu á því hvernig við ætluðum að greiða þetta fé og breytingu í rauninni frá því sem lagt var fram í frumvarpinu sjálfu þar sem ráðherra var falið að koma með reglugerð þar um, þannig að verið er að fara yfir þá þætti. Þetta sýnir í hnotskurn hversu flókið það er að ætla að styðja frjálsa fjölmiðla þrátt fyrir að við getum öll verið sammála um mikilvægi þeirra.

Hv. þingmaður vísaði í að það hefði ekki verið umræða í þingsalnum um þetta en hún átti sér vissulega stað í nefndinni. Ég saknaði þess þó að það hefðu komið fram fleiri tillögur í nefndinni um hver væri besta leiðin til að greiða út þá fjármuni sem hér um ræðir á þessum tímapunkti undir hatti Covid-aðgerða. Svo hygg ég að við munum hafa nægan tíma til að ræða áfram framtíðarfyrirkomulag þess efnis.

En ég fékk ekki, virðulegur forseti, skýrt frá hv. þingmanni hvað hann hefði viljað sjá fyrir sér öðruvísi núna þegar kemur að útdeilingu þeirra fjármuna sem um ræðir. Hv. þingmaður vísar vissulega í fjölbreytileika fjölmiðla og mér finnst ástæða til að það komi fram að fólk hefur verið að nefna til að mynda héraðsfréttablöð, að mikilvægt sé að horfa til fréttamiðla sem eru gefnir út á afmörkuðum svæðum. Ég gef hv. þingmanni enn tækifæri til að koma fram með jafnvel betri hugmynd að því hvernig þetta hefði átt að vera orðað hérna inni.