150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að játa að tillögur hv. þingmanns eða Samfylkingarinnar sem komu fram um þetta atriði var ég að sjá í fyrsta sinn í dag. Ég get alveg tekið undir með þingmanninum, mér finnst þær áhugaverðar. Mér finnst þetta vera áhugaverð nálgun á þeim samfélagslega vanda sem stafar af atvinnuleysi og ég tek undir með þingmanninum að við eigum kannski að gera meira af því að skoða sérstaklega hvaða áhrif atvinnuleysi, og sérstaklega atvinnuleysi í þetta miklum mæli eins og núna er, hefur á þessa hópa. En það er einmitt í því augnamiði sem í síðasta aðgerðapakka var tekin ákvörðun, ég man ekki hvort það var í þeim síðasta eða þarsíðasta, um að hækka eða hafa sérstakt framlag (Forseti hringir.) til barnabóta með hverju barni hjá þeim sem fengu barnabætur í fyrra. Ég átta mig á vandanum sem þingmaðurinn nefnir í sambandi við dagsetningar sem við settum í því. (Forseti hringir.) En þingmanninum er kunnugt um það eins og mér að þar voru (Forseti hringir.) tæknilegar ástæður, má kalla, fyrir því að erfiðara var að framkvæma það á þann hátt sem þingmaðurinn vill.