150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[22:20]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum. Þeir komu báðir með að mínu mati málefnalegt og gott innlegg og ég vonast til þess og veit og treysti því að umræðan um þetta mál verði áfram á þeim nótum.

Ég ætla aðeins að leyfa mér að velta því upp sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði um og kom líka fram í samtölum hennar og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, sem er eitthvað sem ég held að sé allt í lagi ræða opinskátt. Það er hvernig við eigum að fá hæfasta einstaklinginn í starfið. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vísaði til fyrirkomulagsins sem hefur nokkuð verið rætt og ég held að við þurfum að ræða og þá er ég ekki að vísa sérstaklega í þetta mál heldur í stöður almennt. Bent hefur verið á varðandi fyrirkomulagið eins og það er núna þegar við erum að ráða í stöðu hjá hinu opinbera, því að við búum í mannheimum og það er ekkert fullkomið, að framkvæmdin á auglýsingum verði stundum til þess að valið er í rauninni lítið. Þótt hæfir einstaklingar sæki um þá er vegna uppsetningarinnar á auglýsingunni ekki möguleiki að velja þann sem talinn er hæfastur. Þetta á ekki aðeins við um stjórnmálamenn, ráðherra, heldur bara innan hins opinbera almennt miðað við lagaskylduna sem er núna. Ég held að menn eigi að ræða það hreinskilnislega og eins og það er. Lífið er ekki excel-skjal og við getum aldrei búið til reikniformúlur yfir það hvernig framkvæma eigi t.d. ráðningar, hvort sem það er innan utanríkisþjónustunnar eða einhvers staðar annars staðar.

Hér er reynt, og ég held að vel hafi tekist til enda var lögð mikil vinna í þennan undirbúning, að gera hlutina bæði gagnsærri og faglegri en sömuleiðis sveigjanlegri, sem ég tel líka skipta miklu máli. Við erum auðvitað með mjög fámenna utanríkisþjónustu og allar stöður sendiherra, allar skipanir sendiherra, frá fyrsta sendiherra til hins síðasta sem er skipaður, eru pólitískar. Ef ráðherra skipar sendiherra í núverandi fyrirkomulagi er það pólitísk skipun. Það skiptir engu máli þótt um sé að ræða einstakling innan utanríkisþjónustunnar. Ég held að ég sé ekki að upplýsa um neitt leyndarmál þegar ég segi að þó svo að þá sé það í öðru umhverfi en pólitíska umræðan er það alls ekki þannig að allar skipanir innan utanríkisþjónustunnar séu óumdeildar eða þar sem menn þekkja til. Við þurfum að hafa það í huga þegar við ræðum þessi mál. Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir vísaði til hefur komið upp tortryggni, við skulum bara segja eins og er. Þegar aðilar sem eru t.d. þjóðþekktir og eru fyrir utan utanríkisþjónustuna koma þar inn hefur það stundum verið umdeilt. En það er ekki eins og til sé annað fyrirkomulag sem er algerlega óumdeilt og yfir allan vafa hafið og eitthvert land sé með þannig fyrirkomulag að það geti sagt með sanni að alltaf sé tryggt að þar sé hæfasti einstaklingurinn skipaður, í þessu tilfelli í stöðu sendiherra. Þannig er lífið ekki.

Mér finnst það hins vegar kostur, sem menn ræddu ekki hér, og vil draga athyglina að því að nú erum við með framgangsmáta innan utanríkisþjónustunnar sem ég held að sé alveg ágætur og gerir það að verkum að menn vinna sig upp í stöðu sendifulltrúa. Ég held að það sé kostur fyrir utanríkisþjónustuna að hægt sé að skipa slíka einstaklinga í stöðu sendiherra og sömuleiðis að stýra hlutum inni í ráðuneytinu. Mér finnst það líka kostur ef viðkomandi fer á einhvern póst og er sendiherra og þegar hann kemur til baka fer hann aftur í þá stöðu sem hann var í.

Við skulum líka hafa það í huga að flestir eru svo lánsamir að geta unnið til sjötugs og það er náttúrlega mjög mikið af góðu fólki sem er kannski ekkert nálægt sjötugu þegar það er skipað í stöðu og eins og fyrirkomulagið er núna verður það í þeirri stöðu allan tímann fram að því. Það er sjaldan hægt að bóka það og í það minnsta veit enginn hvort einstaklingur sem er einstaklega vel til þess fallinn að sinna ákveðnum störfum núna verði það eftir 10–20 ár, jafnvel 30 ár. Það veit auðvitað enginn. Ég er þeirrar skoðunar að það sé gott fyrir alla, ekki síst starfsmennina, að hafa meiri sveigjanleika og hreyfanleika innan hins opinbera. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að enginn sem er í millistjórnendastöðu eða yfir eigi að vera á sama stað lengur en í átta ár. Ég held að það sé mjög gott fyrir fyrirkomulagið, og þá er ég ekki bara að tala um utanríkisþjónustuna heldur almennt, að menn færi sig á milli. Ég held að það sé góð menning fyrir alla. Ef þetta frumvarp verður samþykkt mun það tryggja mun meiri sveigjanleika en er í dag og sömuleiðis meira gagnsæi.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var líka að tala um tímabundnar skipanir til fimm ára, hún setti spurningarmerki við það. Það er auðvitað ekki til nein mælistika á þessu. Þetta er meira hvernig við metum það. Ég held að það væri ekki rétt að halda öðru fram, og held reyndar að því sé þveröfugt farið, en að það sé almennt þannig með þá sem hafa verið kallaðir til starfa t.d. sem sendiherrar utan utanríkisþjónustu að reynslan af þeim sé góð. Jafnvel þótt við myndum bæta mjög vel í utanríkisþjónustuna þá verður hún alltaf fámenn í samanburði við það sem gerist annars staðar og það er mjög gott að fá fólk annars staðar að með aðra reynslu. Hér er nefnt, og ég nefndi það í framsöguræðu minni, t.d. tengslanet sem er oft vanmetið fyrirbæri, ef þannig má að orði komast. Það er enginn vafi að þegar við erum að tala um að gæta hagsmuna okkar er mjög mikilvægt að hafa þannig einstaklinga. Ég er ekki að segja að þeir sem eru innan utanríkisþjónustunnar geti ekki haft gott tengslanet í þessum heimi, það er auðvitað langur vegur frá, ég er alls ekki að segja það. Hins vegar er akkur í því að fá fólk sem er gott í að byggja tengslanet og ég tala nú ekki um fólk sem hefur gott tengslanet þegar það hefur störf. Þetta er nákvæmlega eins á erlendri grund eins og á Íslandi, það er mikilvægt að hafa gott tengslanet ef menn ætla að ná góðum árangri í störfum sem þessum. Það er ekkert víst að einstaklingar sem eru tilbúnir til að þjóna í utanríkisþjónustu sem sendiherrar séu ginnkeyptir fyrir því að fara í það á öðrum forsendum en þeim að þeir gegni stöðunni tímabundið.

Hv. þingmaður dró athygli að því sem er mjög mikilvægt sem eru sérstakir erindrekar, sem ég tel að vísu að sé vanmetin staða og jafnvel of lítið notuð af okkur. Þar á sama við. Það eru mörg dæmi þess og við þekkjum það að Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri, svo við tökum einhver dæmi, á erlendri grund og hafa samt áður hafa mikinn áhuga á hagsmunum lands og þjóðar. Það væri ekki gott ef við værum að útiloka að geta skipað slíka aðila sendiherra. Ég held að það væri slæm ákvörðun og ekki til þess fallin að styrkja utanríkisþjónustuna eða hagsmunagæslu okkar á erlendri grund.

Ég held að það sé ekkert sem var beint til mín sérstaklega en auðvitað eigum við eftir að taka þessa umræðu áfram. Ég vil að endingu aftur þakka báðum þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls undir þessum umræðum. Mér fannst innlegg þeirra beggja málefnalegt og gott.