150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:46]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hún vísar til þess að 42. gr. verndi fólk gegn því að vera sent til svæðis þar sem það á á hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð og vísar þar til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Staðreyndin er bara sú að þessari grein hefur aldrei verið beitt. Þessari reglu hefur aldrei verið beitt. Gerð er mjög há krafa um alvarleikastig til að þessari reglu sé beitt og miklu almennari en sérstakar aðstæður og að því leyti snýr hún að almennum aðstæðum viðtökuríkja en ekki einstaklingsbundnum úrræðum.

Það er gott að heyra ef það er ætlun hæstv. ráðherra að gera betur í málefnum fylgdarlausra barna á flótta því að það er svo sannarlega það sem Ísland þarf að gera. Gott og vel, ef áætlanir eru um það að taka á móti og hlýða og svara þessu ákalli grískra stjórnvalda varðandi það að óska eftir aðstoð evrópskra ríkja varðandi yfirfullar flóttamannabúðir á eyjunum í Eyjahafi, þá er gott að hæstv. ráðherra sé að íhuga það. En er ekki kominn tími til að taka þá ákvörðun og taka þá á móti fylgdarlausum börnum á flótta? Ég minni líka á það sem kom fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, ef mér skjátlast ekki, um brottvísanir. Þar kom m.a. fram að á árunum 2016–2019 hafi tveimur eða þremur fylgdarlausum börnum á flótta verið vísað á brott frá Íslandi. Það er hreinlega alvarlegt brot á alþjóðareglum og við viljum ekki sjá það, og ég efast ekki um að það er ekki vilji hæstv. ráðherra. Ég myndi gjarnan vilja sjá afdráttarlausari aðgerðir þegar kemur að því að hlýða þessu alþjóðlega kalli. Það er gott að heyra ef hún ætlar sér að taka á móti fleiri (Forseti hringir.) fylgdarlausum börnum á flótta en ég vil gjarnan fara að sjá þær aðgerðir (Forseti hringir.) í raun.