150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með vonumst við til þess að aðgerðir stjórnvalda og þingsins skili þeirri niðurstöðu að sem fæstir lendi í þeim vandræðum að það þurfi nauðungarsölu, lánveitandi grípi til þess ráðs. Ef það er pása á nauðungarsölum með lögum frá Alþingi gefur það meira svigrúm til að klára öll þau vandamál milli lánveitenda og lántakenda með einhvers konar endurfjármögnun og slíku. Þegar því skjóli er aflétt verði vonandi sem fæstir eftir, en mögulega verða það einhverjir. Á þeim tímapunkti selur væntanlega lánveitandinn, þ.e. bankinn, viðkomandi húsnæði á nauðungaruppboð og ríkið nýtir forkaupsrétt eða eitthvað slíkt til að kaupa eignina og skuldbreytir þeim kaupum í lán húsnæðisins þar sem viðkomandi er með lögheimili og verður í rauninni lántakandi aftur, þá beint frá ríkinu í gegnum kaupleigu eða einhvers konar samning sem ríkið heldur á í ákveðinn langan tíma, Íbúðalánasjóður getur gert þetta eða eitthvað slíkt, þangað til að sá sem er íbúðareigandi getur skuldbreytt eða fengið endurfjármögnun á láninu hjá venjulegri lánastofnun. Þá er ríkið búið að kaupa upp lán og selja lánið til baka og allt þar undir ætti í rauninni að standa nokkurn veginn á núlli, kannski verður fjármagnskostnaður eða einhver lán sem glatast algerlega eða eitthvað því um líkt. En eftir stendur ríkið með eignina ef viðkomandi fellur frá eða eitthvað því um líkt þannig að eignin er til staðar á bak við þannig að það ætti að vera mjög ódýr aðgerð.