150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið notuð orðin „betra meira en minna“. Það væri fínt að hafa belti og axlabönd í þessu ástandi þegar óvissan er sem mest. Það er hlutverk hins opinbera og ríkisstjórnarinnar að eyða óvissu með aðgerðum sínum. Það hefur ekki tekist hingað til, það er enn þá óvissa eftir fyrsta og annan pakkann — og hver veit hvað gerist í þeim þriðja? Við erum ekki enn komin með neinar nákvæmar upplýsingar um það eða hvernig á að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Þingflokkur Pírata hefur með öðrum flokkum í stjórnarandstöðunni lagt fram ýmsar tillögur, sérstaklega hvað varðar nýsköpun til þess að koma einmitt til móts við þá holu sem er að myndast í atvinnu á Íslandi. Þær hafa allar verið felldar einhverra hluta vegna og á sama tíma hefur líka verið komið í veg fyrir að atvinnutryggingar dekki það öryggisnet sem ætti að vera til staðar.

Vegna þessa (Forseti hringir.) greiðir þingflokkur Pírata ekki atkvæði og ég segi: Gult er víst notað dagsdaglega.