150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

leigubifreiðar.

773. mál
[17:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðar. Samkvæmt gildandi lögum um leigubifreiðar hafa leigubifreiðastjórar heimild til þess að leggja inn atvinnuleyfi sitt tímabundið og hafa margir þeirra nýtt sér það úrræði vegna samdráttar á leigubifreiðamarkaði sökum áhrifa af Covid-19 faraldrinum.

Leigubifreiðastjórar sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár hafa hins vegar ekki heimild til þess að leggja inn atvinnuleyfið þar sem það skilyrði er sett í núgildandi lögum að þeir hafi nýtt atvinnuleyfið í tvö ár frá því að það var gefið út til að hægt sé að leggja það inn.

Útbreiðsla veirunnar hefur haft mikil áhrif á atvinnulífið og samfélagið allt og búast má við að þeirra áhrifa muni gæta áfram. Áhrifin eru einna mest á ferðaþjónustuna, eins og við þekkjum, sem margir leigubifreiðastjórar sækja viðskipti sín til. Þeir leigubifreiðastjórar sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en í tvö ár eru í erfiðri aðstöðu eins og hinir og því er lagt til í þessu frumvarpi að þeir geti lagt inn atvinnuleyfi sitt þrátt fyrir að hafa haft atvinnuleyfið skemur en tvö ár. Lagt er til að ákvæðið gildi til ársloka 2020.

Með því að leggja inn leyfið geta leigubílstjórar sparað kostnað vegna atvinnuleyfisins og sótt um atvinnuleysisbætur. Markmið frumvarpsins er að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins fyrir leigubifreiðastjóra og gæta jafnræðissjónarmiða.

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta er lagt fram til að leigubifreiðastjórar sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár geti lagt inn atvinnuleyfið eins og aðrir þar sem ófyrirséð er hve lengi samdráttur á leigubifreiðamarkaði mun standa yfir vegna Covid-19 faraldursins.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.