150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[18:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér á eftir tökum við í þriðja sinn á dagskrá 1. umr. um breytingu á lögum um útlendinga. Ástæðan fyrir því að þetta hefur tafist þetta lengi er í fyrsta lagi djúpstæð andstaða nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna sem hafa staðið í vegi fyrir því að þetta óbermismál komist til nefndar. Það sem mér hefur hins vegar fundist vanta í umræðuna er að heyra sjónarmið stjórnarliða, að skilja hvernig þessi gríðarlega stefnubreyting varð frá því að hæstv. félagsmálaráðherra tilkynnti vígreifur að hann ætlaði að hætta að senda börn á flótta aftur til Grikklands, óháð stöðu þeirra, fyrir tveimur mánuðum. En staðan nú er sú að það á tryggja að hægt sé að endursenda öll börn sem fengið hafa vernd í Grikklandi beint aftur til Grikklands. Ég hvet því stjórnarliða til að taka þátt í umræðunni á eftir og réttlæta þetta voðaverk sitt.