150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég bendi á að eins og lögin hafa verið framkvæmd þá eru heimildir til að veita sérstakar undanþágur þegar kemur að börnum en Útlendingastofnun hefur bara túlkað það á annan hátt og þessar heimildir hafa ekki verið nýttar. Það er gott að hv. þingmaður styður það að setja eigi börn í forgang og veita sérstaka undanþágu. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem eru lög á Íslandi, segir einfaldlega, í 1. mgr. 3. gr., með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Og inni í þessum málaflokki eru auðvitað ráðstafanir sem varða börn, fátækustu börn í heimi, börn á flótta, börn sem eru hrædd, börn sem lenda, eins og hv. þingmaður sagði, í misnotkun, börn sem lifa við ómannúðlegar og hræðilegar kringumstæður. Það er því lögbundið þegar við erum að vinna hér lög um hagi þeirra að við setjum þau í forgang.

Hvernig hefur þessu svo verið framfylgt? Það kemur líka fram í þessum lögum að litið skuli til barnsins og staða foreldranna eigi ekki að hafa áhrif á réttindi barnsins. Þegar verið að taka ákvarðanir um að vísa fólki úr landi er foreldrum samt vísað úr landi án þess að taka afstöðu til barnsins. Eftir á er svo tekin ákvörðun um að barnið skuli fylgja foreldrum sínum af því að það sé barninu fyrir bestu. Þetta er gert í staðinn fyrir að taka afstöðu til foreldranna út frá barninu — hvað er barninu fyrir bestu — eins og lögin kveða á um. Það er því gríðarlega mikilvægt (Forseti hringir.) að þeir sem vinna þessi mál hér í þinginu, og þeir sem á endanum þurfa að greiða atkvæði með eða á móti, séu vel inni í þessu og setji barnið í forgang, eins og mér heyrist hv. þingmaður hafa hug á að gera.