150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

samningur ríkisins við erlenda auglýsingastofu.

[15:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Samhliða því að farið verður að opna landið að nýju eftir veirufaraldurinn hyggst ríkisvaldið fara í kynningu erlendis á Íslandi sem ferðamannalandi. Þegar hefur verið gengið frá samningi um hluta af því fé sem verja á í þessa kynningu við breska auglýsingastofu. Það kemur fram í máli aðila hér innan lands sem vinna hjá íslenskum auglýsingastofum að í fyrsta lagi hafi mjög litlu munað á einkunnum sem þessar stofur fengu. En það kemur líka fram að þeir telja að útboðið hafi verið ósanngjarnt að því leyti að það fól í sér virðisaukaskatt sem breska skrifstofan stendur náttúrlega ekki skil á.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við ætlum að byggja Ísland upp að nýju með því að flytja út störf, eins og verið er að gera í þessu tilfelli. Ég geri mér fulla grein fyrir að hér hefur væntanlega farið fram útboð á Evrópska efnahagssvæðinu og ef svo hefur verið gert, sem ég efast ekki um, þá hlýt ég að spyrja líka hvort eitthvað sé til í þeim rökum þessara ágætu manna sem hérna hafa komið fram, að þessi staðreynd með vaskinn hafi komið illa við íslensk tilboð. Það munar um 20% þar á, ef ég skil rétt. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega ætlan þessarar ríkisstjórnar að fara að flytja út störf og gjaldeyri til að byggja Ísland upp að nýju. Mig langar í skýr svör.