150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér aftur upp til að mótmæla orðum hæstv. forseta sem sagði mig hafa farið út fyrir efnið og ekki vera í andsvörum við hv. þingmann heldur vera að ræða eitthvað allt annað. Það er rangt. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson stóð í pontu og sagði að þeir sem styddu það mál sem hér er væru að ekki greiða fyrir því að SÁÁ fengi aukið fjármagn í rekstur meðferðarstöðvarinnar. Það var innihald ræðunnar. Ég átta mig á því að það er flókin staða að sitja í forsetastól og greina öll orð sem koma fram, en það verður samt að vera þannig að þegar hæstv. forseti er leiðréttur með villu sína þá viðurkenni hann það. Hann fór þarna út af sporinu þar sem andsvarið var í beinu sambandi við ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar og það er skýlaus réttur þingmanns að fá að fara í andsvar án þess að vera truflaður af forseta.