150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Frumvarpið er á þskj. 1424 og málsnúmerið er 811. Frumvarpið er liður í aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti 28. apríl sl. og felur í sér að veittur verði fjárstuðningur úr ríkissjóði til greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja réttindi launafólks og draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um framlengingu á hinni svokölluðu hlutastarfaleið og frumvarpi dómsmálaráðherra um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja. Þær aðgerðir voru kynntar á sama tíma og sú sem felst í þessu frumvarpi og er þeim öllum ætlað að vinna saman að fyrrnefndum markmiðum.

Ég vil láta þess getið hér að annars staðar á Norðurlöndunum er einatt beitt sérstakri útfærslu til að gera fyrirtækjum kleift að draga úr starfsemi sinni ef tilefni er til án þess að það hafi áhrif á gjaldfærni þeirra og ráðningarsamband við starfsfólk. Það er önnur útfærsla en hér er lögð til. Ég er að vísa til dæma sem má finna í kjarasamningum, t.d. í Noregi og Danmörku, en þar hafa fyrirtæki heimild til að setja starfsfólk í tímabundið launalaust leyfi og fær það starfsfólk atvinnuleysisbætur á meðan leyfið varir. Starfsfólk sem fer í launalaust leyfi á þessum forsendum heldur ráðningarsambandi við fyrirtækið og á rétt til áframhaldandi starfa að leyfinu loknu. Sú tímabundna aðgerð sem hefur falist í hlutastarfaleiðinni er meira í ætt við norrænu úrræðin og eiga þau það sameiginlegt að gert er ráð fyrir að launafólk snúi til baka í störf sín eftir að tímabundnum rekstrarörðugleikum lýkur. Við þær aðstæður sem nú eru uppi þarf að gera ráð fyrir að fyrirtæki gangi í gegnum endurskipulagningu og er við því brugðist, m.a. með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir.

Það þarf auðvitað ekki að láta þess getið að úrræðin á Norðurlöndum, eins og á við reyndar í þessu frumvarpi, eru fyrir fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegum skelli. Í þessu frumvarpi gerum við ráð fyrir því að úrræðin standi þeim til boða sem hafa orðið fyrir a.m.k. 75% tekjufalli og í frumvarpinu er kveðið á um viðmiðunartímabil í því efni. Það gefur augaleið að fyrirtæki sem hefur litlar sem engar tekjur mun eiga verulega erfitt með að geta staðið í skilum með laun, að ekki sé talað um að greiða fullan uppsagnarfrest fyrir alla starfsmenn eins og getur átt við um sum tilvikin. Í síðustu viku sáum við meira að segja Borgarleikhúsið sjálft eiga í vandræðum með að greiða laun, það hefur væntanlega ekki getað notið góðs af ýmsum úrræðum sem stjórnvöld hafa teflt fram að undanförnu. Það er ekki að efa að án þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa fengið samþykkt á Alþingi og við á þinginu tekið saman ákvörðun um væri fjöldinn allur af fyrirtækjum, sem sérstaklega er verið að hugsa um í þessu frumvarpi, í miklum erfiðleikum með að standa skil á launagreiðslum.

Úrræðið sem hér er til umfjöllunar tekur til einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur og hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019. Það er hugsað fyrir fyrirtæki sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Það gildir ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Þau skilyrði sem atvinnurekandi þarf að uppfylla til að geta fengið stuðning eru eftirfarandi:

Uppsögn launamanns sem ráðinn hafði verið fyrir 1. maí 2020 þarf að vera vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.

Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda verður að hafa dregist saman um 75%, eins og ég nefndi áður, frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns, samanborið við fyrri tímabil. Ég vísa til frumvarpsins um það efni. Það er aðeins sveigjanlegt með tímabilin.

Atvinnurekandi skal ekki frá 15. mars 2020 hafa ákveðið að greiða út arð, lækka hlutafé, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin bréf eða ráðast í sambærilegar aðgerðir. Hér má spyrja af hverju 15. mars hafi verið valinn. Ég verð að segja að í hinum ýmsu ólíku úrræðum sem við höfum farið með í gegnum þingið að undanförnu og gert að lögum hefur ýmist verið litið til 15. mars og stundum 1. mars en hér er miðað við 15. mars, m.a. vegna þess að þá var nýbúið að taka ákvörðun um samkomubann í fyrsta skipti og alveg hægt að fullyrða að mönnum átti að vera orðið ljóst hversu mikil efnahagsleg áhrif þessi faraldur myndi hafa. Þótt það kunni að hljóma furðulega núna vegna alls þess sem gerst hefur frá því að fyrsta smitið kom upp 29. febrúar held ég að með nokkurri sanngirni sé hægt að segja að 1. mars hafi dálítið önnur staða verið uppi en 15. mars þannig að þegar maður er að festa niður dagsetningar í þessu efni finnst mér 15. mars vera sanngjörn dagsetning.

Atvinnurekandi skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld skulu ekki byggjast á áætlunum. Þá skal hann hafa staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum og öðrum skýrslum og skilagreinum, þar með talið CFC-skýrslum, til Skattsins síðustu þrjú árin áður en umsókn barst. Jafnframt skal hann hafa staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.

Bú atvinnurekanda skal hvorki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.

Að auki er sett það skilyrði fyrir útgreiðslu á stuðningi að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum fyrir sama mánuð.

Ég vík aðeins nánar að stuðningnum. Samkvæmt frumvarpinu nemur hann að hámarki 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda. Að auki greiðist stuðningur að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf. Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.

Til að styrkja réttindi launamanna skulu þeir launamenn sem sagt er upp störfum og atvinnurekandi nýtur stuðnings vegna hafa forgang að sambærilegu starfi hjá fyrirtækinu skyldi hagur þess vænkast innan ákveðins tíma. Við slíka ráðningu myndu launamenn áfram njóta þeirra réttinda sem þeir höfðu safnað sér í starfi áður en til uppsagnar kom.

Lagt er til að Skatturinn sjá um framkvæmd úrræðisins og að umsóknarferlið verði rafrænt. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins verði endanlegar á stjórnsýslustigi en að á grundvelli stjórnsýslulaga verði unnt að fá ákvörðun endurupptekna ef hún reynist ekki byggð á réttum forsendum.

Samkvæmt frumvarpinu skal tekjufæra stuðningsfjárhæðina í skattskilum atvinnurekenda. Hún verður þannig nýtt til jöfnunar taps á því ári sem stuðningur fæst og til jöfnunar yfirfæranlegs rekstrartaps fyrri ára eftir því sem við á. Þetta finnst mér sjálfsagt, að þeir sem eiga yfirfæranlegt eldra skattatap sem þeir hugðust taka með sér inn í framtíðina til að jafna á móti greiðslu skatta verði að sjá á eftir slíkri kröfu í raun og veru á ríkið um lægri skattgreiðslur í framtíðinni fyrir það að fá stuðning. Frumvarpið er sett þannig saman að tekjufærslan mun sem sagt nema því sem telst vera samanlagt yfirfæranlegt rekstrartap fyrri ára og tap þess árs þegar stuðningurinn fæst árið 2020 en að öðru leyti verður ekki tekjufærsla á þessu ári. Það sem er umfram verður fært í sérstakan sjóð meðal eigin fjár sem tekjufærður verður á næstu sex rekstrarárum. Þá koma tekjufærslurnar á móti í rekstrinum, 10% ár hvert fyrstu tvö árin og 20% á ári næstu fjögur ár þar á eftir. Gert er ráð fyrir því skilyrði fjárstuðnings að atvinnurekandi skuldbindi sig til að gera ekki tilteknar ráðstafanir er lúta að útgreiðslu fjár, svo sem í formi arðgreiðslu, fyrr en stuðningurinn hefur að fullu verði tekjufærður. Lagt er til að atvinnurekandi geti leyst sig undan þeirri skuldbindingu með því að endurgreiða með verðbótum og vöxtum þann hluta fjárstuðnings sem þá er ótekjufærður.

Í frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði heimilt að birta nöfn þeirra atvinnurekenda sem hefur verið ákvarðaður stuðningur á grundvelli laganna. Komi til þess að kallað verði eftir nánari upplýsingum um stuðninginn munu almenn lög gilda um þær upplýsingabeiðnir.

Uppsögn er viðurhlutamikil en með þessari aðstoð á uppsagnarfresti er leitast við að draga úr óvissu og drætti á heimtum launa fyrir launþega vegna tekjufalls vinnuveitanda. Eins og hér hefur áður komið fram er einnig verið að draga úr líkum á því að vinnuveitandinn verði hreinlega gjaldþrota. Þetta eru fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjuhruni sem við erum hér að ræða um. Við trúum því að með því að gera þessar ráðstafanir tryggjum við í fyrsta lagi að öll launatengd réttindi verði virt við launamann og að fyrirtækið fái þá tækifæri með þessu til þess að fá visst skjól, leggjast í híði til að geta gripið tækifærið þegar aðstæður batna, að þegar hagur vænkast á ný muni þessi færri gjaldþrot og meiri sveigjanleiki gagnvart fyrirtækjunum leiða til þess að spyrnan frá botninum verði kraftmeiri og öflugri. Þannig verði þetta ástand eins stutt og kostur er og störfum fjölgi hratt á ný.

Það er gríðarlega erfitt að leggja mat á líkurnar á árangri í þessu fyrir fram. Eins og ég vék að held ég að það sé engum vafa undirorpið að margur launþeginn væri kominn í mjög þrönga stöðu og gríðarlega mikla óvissu ef ekki væri fyrir þær stuðningsaðgerðir sem við höfum þegar gripið til, t.d. í formi stuðningslánanna sem eru nú í lok mánaðar að renna sitt skeið í því formi sem við höfum þekkt það. Þá taka við þessar tvær leiðir, annars vegar sú sem hér er verið að kynna og hins vegar það úrræði sem félagsmálaráðherra mælir fyrir um varðandi framhald á hlutabótaleiðinni með hertum skilyrðum, auk þeirra mála sem dómsmálaráðherra kynnir fyrir þinginu og ég hef sömuleiðis vikið að.

Það er sem sagt engin spurning í mínum huga að við höfum skapað skjól fyrir heimilin með þessum úrræðum. Það þarf sérstakt úrræði fyrir þau fyrirtæki sem ekki munu ráða við skilyrðin í hlutabótaleiðinni. Mörg hver munu eiga erfitt með að standa skil á 25% launa áfram og þegar skilyrðin herðast í júlí upp í 50% skyldu vinnuveitanda til að greiða laun verður enn skýrara að mörg þeirra munu ekki heldur ráða við það. Hér er sömuleiðis, eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu, tekið tillit til þess að án aðgerða yrði til félagslegur vandi með því að laun væru ekki greidd út. Gjaldþrotin myndu sömuleiðis valda mjög mörgum sjálfstæðu tjóni þannig að þegar við erum að meta bæði kostnaðinn við þetta úrræði og möguleg áhrif eru mikil áhrif á heimilislíf hjá fjöldamörgu fólki. Það er líka verið að horfa á efnahagslegu áhrifin. Ég trúi því að við getum með samspili þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa verið að kynna náð því markmiði að langtímaatvinnuleysi á Íslandi verði minna og efnahagslægðin sömuleiðis grynnri. Þetta eru gríðarlega mikilvægar aðgerðir í þessu tilliti. En að spá fyrir um það nákvæmlega hvernig það muni leggjast út í milljörðum kostnaðar eða í prósentum landsframleiðslu er mjög flókið verkefni. Það þarf einfaldlega að taka ákvörðun.

Það er þannig talsverð óvissa um það hversu mikill kostnaður mun falla á ríkissjóð vegna þess frumvarps sem hér er mælt fyrir. Augljóslega mun endanlegur kostnaður m.a. ráðast af fjölda þeirra sem koma til með að nýta sér úrræðið og hins vegar því hversu háar greiðslur verða fyrir hvern launþega en í áhrifamati með frumvarpinu er farin sú leið að gefa sér ákveðnar forsendur. Þar er áætlað að brúttókostnaður vegna greiðslu á hluta af launakostnaði fyrirtækja geti numið í heildina 27 milljörðum kr., án tillits til allra frádráttarliða sem gætu komið til sögunnar.

Ein leið til að horfa á þetta mál er sú að sjá fyrir sér öll þau fyrirtæki í landinu sem hafa orðið fyrir 75% tekjufalli, og mörg hver sjá kannski fram á litlar tekjur næstu mánuðina, standa frammi fyrir 27 milljarða kr. reikningi frá fólkinu sem vinnur hjá þeim og þá má spyrja hvort tekjulaus fyrirtækin muni geta staðið undir þessum 27 milljarða reikningi. Það er ein leið til að nálgast þetta. Með þessum 27 milljörðum er verið að miða við að 90% þeirra launþega sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum greinum og hafa nýtt hlutastarfaleiðina í samstarfi við launagreiðendur muni fá greiðslur úr ríkissjóði á uppsagnarfresti, alls um 12.500 manns. Það gerist þá óbeint í gegnum fyrirtækin, að sjálfsögðu. Við erum sem sagt að tala um þær forsendur að 90% þeirra launþega sem eru í ferðaþjónustu og tengdum greinum hafa verið að nýta hlutastarfaleiðina. Við tökum ferðaþjónustuna sérstaklega út vegna þess að hún er einkennandi fyrir þá sem eru með meira en 75% tekjufall. Þeir starfsmenn fá í raun og veru uppsögn og stuðningur kemur til þeirra fyrirtækja. Þetta eru um 12.500 manns af þeim 36.000 í heildina sem hafa verið á hlutastarfaleiðinni.

Ef menn skoða frumvarp félagsmálaráðherra má sjá þar tölur sömuleiðis um áætlaðan kostnað þar sem gert er ráð fyrir 20.000–25.000 manns í framhaldi hlutastarfaleiðar. Ef við tökum þessar tvær stærðir og leggjum þær saman fáum við u.þ.b. þann fjölda sem hefur verið á hlutastarfaleið.

Það er rétt að taka fram að í þessu kostnaðarmati upp á 27 milljarða hefur ekki verið tekið tillit til þess kostnaðar sem ríkissjóður hefði mögulega þurft að axla að verulegu leyti, t.d. með greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa, kæmi til gjaldþrota. Það er mjög erfitt að segja til um það hversu mörg fyrirtæki hefðu farið í þrot án aðgerða og að hvaða marki þau hefðu getað greitt hluta launakostnaðar. Ég hef hér verið að færa rök fyrir því að minni hluti þeirra hefði átt möguleika á því. Það held ég að sé mjög raunsætt mat. Við sjáum það af því hversu margir nýttu hlutastarfaleiðina og það liggur í hlutarins eðli að fyrirtæki sem eru að koma inn í sumarið við þær aðstæður sem eru núna uppi í ferðaþjónustu verða tekjulaus um margra mánaða skeið og þau hefðu án aðgerða lent í verulegum vanda.

Hér verður einnig að líta til þess að atvinnurekendur sem njóta stuðningsins skulu tekjufæra hann þannig að fyrir utan þann kostnað sem að öllum líkindum hefði fallið á ríkissjóð í gegnum Ábyrgðasjóð launa er það tekjufærslan og skattur sem ríkissjóður hefur væntingar til í framtíðinni vegna þess. Við getum hugsað okkur að fyrirtæki sem sér á eftir skattalegu tapi fyrri ára og yfirstandandi árs, mögulega næsta árs líka, mun þá fyrr greiða tekjuskatt ef það kemst í gegnum þessa erfiðleika. Skattar munu skila sér fyrr en ella hefði verið, sem er jákvætt, jafnvel þótt stuðningurinn sem slíkur, eins og kostnaðarmatið er hér, sé augljóslega hærri en væntar skatttekjur.

Þá eru hinir þættirnir sem ég hef hér verið að nefna, skaðinn fyrir heimilin, að við værum síður í stakk búin til þess að fá kraftmikla viðspyrnu þegar aftur fer að birta til sem er þá rökstuðningurinn fyrir því að lögfesta þetta úrræði.

Ég hef hér verið að rekja þetta með tekjufærsluna, eftir atvikum til jöfnunar taps á því ári sem stuðningurinn er veittur og yfirfæranlegs taps fyrri ára. Það sem eftir stendur er fært í sjóð meðal eigin fjár sem er tekjufærður á næstu sex árum, eins og ég rakti áðan. Áhrif þessa fyrirkomulags á skatttekjur munu ráðast að mestu af rekstrarárangri næstu ára stærri fyrirtækja sem eru líklegri til að greiða hærri skattana. Á meðan sjóðurinn er óuppleystur er atvinnurekanda óheimilt að greiða út arð, óumsamda kaupauka og kaupa eigin bréf, eins og ég rakti í upphafi máls míns. Hins vegar er valkostur að greiða til baka óuppleystan sjóð sem er sjálfsagt að nefna vegna þess að ekki er útilokað að ríkissjóður endurheimti einhvern hluta af kostnaðinum fyrr en ella yrði ef þessi valkostur væri ekki til staðar. Við vitum um fyrirtæki sem hefur gengið einstaklega vel á undanförnum árum en eru núna komin í mikinn vanda. Ef birtir til getur verið að þau verði komin í mjög góðan rekstur áður en langt um líður þannig að það kann að eiga við í einhverjum tilvikum að menn muni vilja greiða niður þessa skuldbindingu með því að tekjufæra hana hraðar og það muni leiða til þess að skattar verði fyrr greiddir til ríkisins.

Svo má auðvitað velta fyrir sér hvernig frumvarp félagsmálaráðherra liti út ef við værum ekki með þetta frumvarp í þinginu. Væru þröskuldarnir jafn háir? Væri úrræðið ekki aðeins víðtækara? Gerðum við ekki ráð fyrir því að það fólk sem mun njóta góðs af þessari leið hefði þurft að treysta á það úrræði og að kostnaðarmatið vegna þess máls hefði þá verið umfangsmeira? Ég vil halda því fram að án þessarar leiðar hefðum við neyðst til að hafa framlengingu hlutabótaúrræðisins með lægri þröskuldum. Það verður að horfa á kostnaðarmatið í þessu máli í ákveðnu samhengi við frumvarp félagsmálaráðherra.

Þegar ég hef talið þetta saman, sérstaklega það sem snýr að tekjufærslunni og því sem hefði fallið á ríkissjóð án aðgerða, er í frumvarpinu að finna gróft mat um að áhrif þessara atriða á afkomu ríkissjóðs gætu numið um 12 milljörðum. Þannig er hægt að reikna sig niður á um 15 milljarða kostnaðartölu, þ.e. að 27 milljarðarnir lækki niður í 15 milljarða, en ég verð að ítreka í allri þessari umræðu hversu ofboðsleg óvissan er. Það verður mjög erfitt að komast að niðurstöðu um það á einhverjum tímapunkti hvað hefði orðið ef við hefðum ekki gert þetta en gert eitthvað annað öðruvísi.

Virðulegi forseti. Ég vil undir lok máls míns ítreka að með því úrræði sem kveðið er á um í frumvarpinu er ætlunin að tryggja réttindi launþega og draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og þeim kostnaði sem efnahagslífið gæti orðið fyrir vegna þeirra. Fjöldagjaldþrot fyrirtækja við þær aðstæður sem nú eru uppi gætu dregið enn frekar úr eftirspurn í hagkerfinu, ógreidd laun munu hafa keðjuverkandi áhrif og allt getur þetta leitt til tapaðrar þekkingar og fjárfestingar og raskað stöðugleika í samfélaginu. Þess vegna er þetta frumvarp mjög mikilvægur hlekkur í þeirri keðju aðgerða sem nú hafa borist þinginu til meðferðar. Ég tel þess vegna sérstaklega mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga og legg til að því verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.