150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[18:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt hjá honum, það var að sjálfsögðu einnig skoðað, en miðað var við að fara ekki í varanlegar breytingar á úrræðinu eða lögunum vegna faraldursins heldur að sjá hvernig þetta reyndist og geta þá nýtt það í vinnu sem við þurfum að fara í varðandi gjaldþrotalögin til frambúðar en ekki að búa að því vegna þeirrar sérstöku stöðu sem við erum í.

Þá var einnig skoðað hvort breyta ætti ákvæðinu eins og það er í dag og hvort það væri nægjanlegt. Það var talið of flókið og að mun betra væri fyrir fyrirtæki að koma með nýtt úrræði sem bæri þetta nafn, fjárhagsleg endurskipulagning. Það gæfi betra skjól, hægt væri að hafa skilyrðin mun takmarkaðri og skilgreininguna víðtækari um hverjir féllu undir þetta. Hægt væri að létta á allri málsmeðferð í kringum það, veita það fyrr o.s.frv.

Þarna held ég að við séum komin með mjög góða niðurstöðu til að svara því kalli að bjóða upp á skjól sem hentar vegna þess ástands sem uppi er í þjóðfélaginu í dag. Við erum að einfalda allt ferlið frá A til Ö. Það er mjög mikilvægt að maður geti komist fyrr í skjól þegar maður kemur með beiðni til héraðsdóms og að maður komist út úr leiðinni með mismunandi hætti eftir því hvernig gengur vegna þeirrar óvissu sem uppi er.

Það rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru allt að 12 mánuðir. Maður fær skjólið fyrst í þrjá mánuði og síðan er hægt að framlengja það þannig að heildartíminn gæti verið 12 mánuðir. Það verður væntanlega mjög misjafnt hvað fyrirtæki þurfa á þessu að halda, það fer eftir því hvernig árar hér og hversu hratt efnahagslífið tekur við sér. Ég held að þetta sé mjög ásættanlegur tímarammi en ég þakka hv. þingmanni fyrir.