150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við athugun pakkaferðafrumvarps ferðamálaráðherra í atvinnuveganefnd komu fyrir nefndina tveir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti, annar sérhæfður í eignarrétti. Báðir sérfræðingarnir sögðu að kröfurnar á endurgreiðslu sem verða teknar af fólki með þessu frumvarpi varði eignarrétt. Þeir sögðu að frumvarpið myndi svipta fólk eignarrétti með því að það fengi inneignarnótu í staðinn fyrir kröfurnar. Jafnframt kom fram að til þess að þetta væri ekki brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar þyrftu ríkir almannahagsmunir að vera fyrir lagabreytingunni, skaðinn lágmarkaður fyrir kröfuhafana og aðrar leiðir ekki færar. Við fórum því að skoða hvort aðrar leiðir væru færar án þess að svipta kröfuhafana þessum réttindum sínum, stjórnarskrárvörðum eignarrétti.

Ég kynnti fyrir atvinnuveganefnd tillögu um að gera nákvæmlega það. Hvernig fékk ég þá hugmynd? Mér var sagt að Neytendasamtökin hafi verið að skoða hana þegar ég hafði samband við þau. Hún er mjög einföld. Hæstv. ráðherra ferðamála sagði í Víglínunni í vikunni að 20 stærstu ferðaskrifstofurnar gætu staðið undir að endurgreiða neytendum, en lög segja að þær megi aðeins ganga í tryggingarnar, þá peninga sem eru á bókum, ef þær verða annaðhvort gjaldþrota eða fara í rekstrarstöðvun. Einföld lausn liggur í því. Fyrst þessir peningar eru til staðar, þessar tryggingar, og ekki verður farið í bókaðar ferðir þá fá þær ferðaskrifstofur einfaldlega, án þess að fara í rekstrarstöðvun og án þess að fara í gjaldþrot, aðgang að þeim peningum til að endurgreiða neytendum. Þá fá neytendur endurgreitt samkvæmt lögum, við brjótum ekki neytendarétt, brjótum ekki eignarrétt, brjótum ekki gegn stjórnarskrá. Ferðaskrifstofurnar fái aðgang að peningunum til að halda lausafjárstöðu sinni gangandi.

Það er spurning hvernig hægt væri að útfæra þetta. Það má skoða það í nefndinni. (Forseti hringir.) Ég hef lagt þessa tillögu fram og meðan það er til önnur raunhæf leið væri það brot á stjórnarskrá að fara þá leið sem ráðherra hefur lagt til. (Forseti hringir.) Ég legg því til að nefndin skoði betur það sem hefur verið samþykkt , (Forseti hringir.) og ég mun leggja fram breytingartillögu við málið ef nefndin ætlar ekki að fara aðrar leiðir.