150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tel þetta frumvarp heilbrigðisráðherra sem gengur út á að lögleiða neyslu fíkniefna í ákveðnum neyslurýmum ekki af hinu góða. Það er dýrmætast af öllu að geta hjálpað fíklum að hætta neyslu fíkniefna, það á að vera megináhersla hins opinbera en ekki það að lögleiða neyslu í ákveðnum rýmum. Áform um að breyta refsiákvæðum og áralangri framkvæmd krefjast vandaðs undirbúnings, sér í lagi þegar um er að ræða breytingar á löglegu hlutverki lögreglu og skyldum hennar við meðferð sakamála.

Ég tel að þetta mál sé illa undirbúið sem lýsir sér í því að ríkissaksóknari var í upphafi ekki meðal þeirra 94 aðila sem fengu umsagnarbeiðni frá velferðarnefnd. Hætta er á að þetta verkefni vinni gegn sjálfu sér. Hætta er á að það fjölgi í hópi sprautufíkla þegar lögleiða á slíka neyslu á ákveðnum stöðum.

Ég segi nei.