150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

570. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er stefnt að gerð áætlunar um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Fram hefur komið að stýrihópi forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi var falið að móta stefnu gegn stafrænu kynferðisofbeldi og að forsætisráðuneytið gaf út skýrslu í janúar 2020 sem María Rún Bjarnadóttir vann. Það er greinargerð til stýrihópsins um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi.

Mér leikur forvitni á að vita hvernig vinnunni í heild miðar og lagði því fram fyrirspurn um málið í byrjun febrúar. Umræðan um fyrirspurnina í þingsal hefur dregist en aðgerðir gegn stafrænu kynferðislegu ofbeldi eru jafnmikilvægar núna og þær voru í febrúar og því vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma hér og ræða þessi mál.

Dagleg samskipti fólks hafa breyst mikið síðustu ár þar sem stafræn samskipti aukast ár frá ári og það hefur skapað nýjar áskoranir í daglegu lífi á mörgum sviðum. Breytingin hefur kallað á breytingar á lagaumgjörð og haft áhrif á lagaumgjörð varðandi samskipti einstaklinga. Nægir þar að benda á örar breytingar á löggjöf um persónuvernd sem dæmi. Mörgum finnst lagaumhverfi þó ekki ná að fylgja þróuninni í notkun tækninnar eftir en fræðimenn hafa bent á að andvaraleysi gagnvart hvers konar stafrænu kynferðisofbeldi geti haft alvarlegar samfélagslegar afleiðingar og á það ekki síst við um myndrænt kynferðisofbeldi. Afleiðingarnar geta verið alvarlegar til skemmri og lengri tíma og þá ekki síður í litlu samfélagi eins og á Íslandi en í stærri samfélögum. Ofbeldið getur eins og annað ofbeldi dregið verulega úr lífsgæðum þeirra sem fyrir því verða og valdið bæði andlegum og líkamlegum veikindum, svo sem kvíða og óskýrðum verkjum.

Það hefur reynst erfitt að kortleggja umfang stafrænna brota heildstætt, m.a. vegna þess að í löggjöfinni eins og hún er er ekki að finna ákvæði um stafræna og kynferðislega friðhelgi. Þá hefur samnorræn úttekt sýnt að þolendur ofbeldis telja ólíklegt að það borgi sig að leita réttar síns vegna þess á Íslandi.

Ég vil því spyrja um þrennt:

1. Hvað líður heildarstefnumótun um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi sem starfshópi skipuðum af forsætisráðherra var falið að vinna að í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarflokkanna?

2. Hyggst ráðherra leggja til lagabreytingar til að styrkja stöðu þolenda slíkra brota? (Forseti hringir.)

3. Með hvaða hætti má stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu um stafrænt kynferðisofbeldi og tengd brot?