150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[17:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna því að fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um skógrækt. Ég hef reyndar gert það áður þannig að ég held áfram að hamra.

Ég er með tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Sú fyrri er: Telur ráðherra að aukin skógrækt gæti nýst til að bæta úr bágu atvinnuástandi nú um stundir? Sú síðari er: Telur ráðherra unnt að flýta skógræktarverkefnum með skömmum fyrirvara? Hvaða verkefni kæmu þar helst til greina?

Ég er sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra um ástandið núna, þ.e. aukið atvinnuleysi, með tilliti til þess að stjórnvöld hafa beitt fjármagni til að styrkja atvinnulífið á ýmsum sviðum. Af því tilefni spyr ég hæstv. ráðherra þeirra spurninga hvort skógrækt sé ekki einmitt tilvalið verkefni til að fara í á þessum tímum. Ég geri mér einnig grein fyrir því að ekki er hægt að planta trjám ef ekki er búið að ala plönturnar upp áður. Ég geri mér fulla grein fyrir því en spyr hvort ekki séu ýmis önnur verkefni sem unnt er að fara í með skömmum fyrirvara á sviði skógræktar, eins og t.d. að grisja þá skóga sem fyrir eru sem þarfnast grisjunar. Grisjun eykur vöxt þeirra trjáa sem eftir eru og eykur verðmæti þeirra og gæði og er því innlegg til framtíðar til að auka verðmæti þeirra skóga sem fyrir eru. Ég veit um mörg svæði þar sem þetta hefur farist svolítið fyrir og ekki verið unnið að. Það er eitt verkefni sem ég hef í huga.

Svo má nefna mörg önnur verkefni eins og auðvitað útplöntun á ungplöntum í sumar, stígagerð, fræsöfnun og snyrtingu í þeim skógum sem fyrir eru. Ég held að það sé tilvalið núna og spyr ráðherra hvort ekki sé einmitt tilvalið núna að fara í slík verkefni. Ég minni á, eins og ég hef áður gert, að skógrækt er fjárfesting til langrar framtíðar. Skógrækt er ekki atvinnugrein sem sveiflast til eftir einhverjum hagsveiflum í heiminum eða hér á landi heldur getur hún bara beðið og nýst þegar menn kjósa svo. Það er hægt að bíða með að höggva skóg ef trjáverð er lágt. Það er hægt að geyma það til framtíðar og það er hægt að nýta skóginn þegar menn kjósa. Ég hef mikinn áhuga á að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessara spurninga.