150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka þátt í gangaumræðunni af því að göng skipta gífurlegu máli hvað varðar búsetu. Oft eru það konur sem ráða búsetu fjölskyldunnar og skipta jarðgöng þar öllu máli. Það skiptir máli að hafa góðar samgöngur. Það þekki ég frá Vestfjörðum. Ég vil aðeins minnast á öryggismál í jarðgöngum eins og Vestfjarðagöngum, sem eru rúmir 9 km að lengd. Þar af eru 7 km einbreið göng sem eru stórhættuleg. Ég hef sjálf upplifað það í bílslysi og vil ekki sjá fleiri slík. Eftir að Dýrafjarðargöngin eru komin og hringvegurinn opnast á þessi einbreiði kafli í Vestfjarðagöngunum eftir að verða mikil slysagildra. Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa til þess í vinnu sinni, og þarf að koma því inn í samgönguáætlun hvað varðar þau einbreiðu göng sem eftir eru í landinu, eins og fyrir vestan, Múlagöng o.fl., að það verður að finna lausnir á því að hægt sé að aka í báðar áttir.