150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

630. mál
[20:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þakka fyrir orð hans um að ástæða sé til að skoða hugtakanotkun á málefnasviði ráðuneytisins. Ég vil jafnframt vísa í varnaðarorð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar varðandi það að umræðan er vandasöm. Við eigum hér við þvílík grundvallargildi í allri okkar tilveru og hugsun að þarna þarf að fara með ýtrustu gát. Þá komum við til að mynda að því hvað mannréttindasáttmáli Evrópu kallar mannhelgi. Þar er öryggisnálgunin ríkjandi, þ.e. „human security“ — fyrirgefið, herra forseti, að ég noti ensku, en það var til skýringar. Það er nefnilega heilmikið mál að annars vegar skulum við smátt og smátt komast á þá skoðun að þetta sé kjarnagildi í samfélagi okkar og okkar vestrænu samfélögum, en á sama tíma er skilgreiningin dálítið fljótandi í íslenskum rétti. Það má til að mynda í því sambandi nefna að í almennum hegningarlögum er hvergi minnst á mannhelgi, en þar er t.d. talað um friðhelgi einkalífsins.

Þetta er mikilvæg umræða og ég vísa til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrr í dag, að í vinnunni um stjórnarskrána, sérstaklega þegar kemur inn á næsta kjörtímabil, muni þetta hugtak verða eitt af því sem menn munu skoða og freista þess jafnvel að skilgreina betur og ná einhverri samstöðu um hvað við viljum að hugtakið þýði.