150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þetta frumvarp sem lýtur að því að gefa landsmönnum stafrænt gjafabréf til að verja í ferðaþjónustu og ferðalögum innan lands. Stafrænu gjafabréfin eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að veita efnahagslífinu og einkum ferðaþjónustunni viðspyrnu. Ég verð að segja að þetta er ágætismál þó að dálitlir vankantar séu á því sem ég ætla að koma aðeins inn á á eftir og þyrfti að íhuga innan nefndarinnar. Það lýtur að fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins. Einir tveir mánuðir eru síðan hann var samþykktur og við erum að sjá þetta í frumvarpi hér núna, heilum tveimur mánuðum síðar. Þetta finnst mér sýna að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins, mótvægisaðgerðir til að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir vegna hans, koma margar hverjar allt of seint fram og í mörgum tilfellum eru þær einnig of flóknar og þetta er mál sem hefði verið hægt að koma fyrr fram. Ég er alveg sannfærður um það. Þess vegna er brýnt að ríkisstjórnin, sem ræður förinni í þessu, átti sig á því að sá tími sem líður frá því að aðgerðir eru boðaðar og þar til þær koma til framkvæmda er of langur og biðtíminn getur líka valdið tjóni. Á tímabilinu er hugsanlegt að einhver fyrirtæki hreinlega nái ekki að lifa þannig að því fyrr sem tillögurnar koma til framkvæmda því betra. Það er nauðsynlegt að hafa í huga.

Þetta er að sjálfsögðu góð hvatning til að ferðast innan lands og hér kemur fram að landsmenn muni geta notað ferðagjöfina hjá öllum fyrirtækjum sem eru með gilt leyfi hjá Ferðamálastofu og þeim sem eru með gilt leyfi til að reka veitingastaði, gististaði eða stunda skemmtanahald og fyrirtækjum sem eru með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd. Auk þess má nýta hana hjá ökutækjaleigum, söfnum og fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru. Ég fagna því sérstaklega að leggja áherslu á íslenska menningu, sögu og náttúru. Þannig að það er ljóst að öll fyrirtæki í ferðaþjónustu geta tekið þátt.

Tæknilausnin er ágætlega útfærð að mínu mati og einfaldar greiðslur með þessari ferðagjöf. Hún býður síðan upp á ýmsa möguleika, ekki bara þessa tilteknu gjöf varðar heldur eins og hæstv. ráðherra nefndi hér í sinni ræðu, að fyrirtæki og hópar geti tekið sig saman í þeim efnum og gefið gjafir og nýtt greiðslumátann sem er ákveðin nýsköpun og vel að verki staðið. Og það kostar allt peninga og kostar ríkissjóð um 1,5 milljarða, 5.000 kr. á hvern einstakling. Sumir hafa gert svolítið grín að því að það sé lítil upphæð og en það má þó safna henni upp. Að vissu leyti er þetta viðleitni til að hvetja til ferðalaga innan lands og er ákaflega mikilvægt að landsmenn geri það og auki neyslu innan lands. Það hjálpar okkur öllum, hjálpar hagkerfinu, efnahagslífinu og allir vinna í raun og veru á því og því fyrr, því betra, því hraðar náum við okkur af stað.

Að málinu vann verkefnahópur sem í sátu fulltrúar stjórnvalda og ferðaþjónustunnar. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni að hún bindur vonir við mótframlög frá ferðaþjónustufyrirtækjum sem taka þátt í verkefninu og ég hefði talið að það hefði átt að útfæra í þeirri vinnu, að það lægi bara fyrir að það kæmi mótframlag. Það held ég að hefði verið mun skynsamlegra og þá hefðum við og þeir sem fá þetta gjafabréf séð að verkefnið er þá stærra, þ.e. upphæðirnar hækka þá væntanlega og fólk sér kannski meiri hag í því. Mér finnst svolítið ámælisvert að slíkt skyldi ekki hafa verið útfært innan verkefnahópsins sem stóð að þessari vinnu.

Ég vil líka einnig koma aðeins inn á, herra forseti, 3. gr. þar sem er fjallað um þá hámarksupphæð sem hvert fyrirtæki getur tekið við með þessum greiðslumáta. Talað er um 100 milljónir og svo 25 millj. kr. hjá fyrirtækjum sem voru í rekstrarerfiðleikum fyrir 31. desember 2019. 100 millj. kr. er að sjálfsögðu há upphæð. Það er reyndar ólíklegt að fyrirtæki muni fara yfir hámarkið vegna þess að það eru náttúrlega mörg þúsund ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi og að sjálfsögðu mun þetta dreifast á milli þeirra þó að einhver þeirra njóti meiri vinsælda en önnur. Ástæðan fyrir þessu er Evrópulöggjöfin og Evrópusambandið og hámark ríkisstyrkja. Nú erum við komin að því að Evrópusambandið hefur áhrif á málið og hvernig við útfærum það hér á landi og það finnst mér vera af hinu slæma vegna þess að þetta eru fordæmalausar aðstæður og við ættum að fá að ráða því sjálf hvernig við getum útfært hlutina og hvað myndi henta okkur best og það finnst mér vera mikilvægt atriði. En hér er þetta hámark sett vegna þess að að Evrópusambandið hefur mælt svo fyrir um í orðsendingu eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það er mjög athyglisvert.

Ég vil aðeins koma inn á það sem mér finnst vanta í frumvarpið. Það eru fyrirtæki sem leigja útilegubúnað, tjöld, GPS-tæki, svefnpoka, allt sem þarf í ferðalagið, lausa muni sem tengjast ferðamennsku. Þau falla ekki undir þetta frumvarp. Við þekkjum að það eru fjölskyldur sem hafa ekki efni á því að kaupa sér hótelgistingu, eiga ekki tjald, húsbíl, hjólhýsi o.s.frv. en myndu kannski vilja fara í ferðalag og vildu geta haft tök á því að leigja búnað og þess vegna finnst mér fullkomlega eðlilegt að slík fyrirtæki gætu nýtt sér þetta gjafabréf. Ég veit að ráðuneytið hefur staðfest að þess háttar starfsemi sem er hér lýst, þ.e. leiga á útilegubúnaði, fellur ekki undir skilgreiningu laganna eða frumvarpsins. Ég vil hvetja nefndina til þess að skoða mjög vandlega hvort ekki sé eðlilegt að slík fyrirtæki megi taka við gjafabréfunum. Ég er sannfærður um að þau kæmu með mótframlag með afslætti eða einhverju því um líku ef fólk nýtti sér leiðina. Við sjáum að bílaleigur falla undir frumvarpið og þær leigja t.d. GPS-tæki þannig að það er hægt að kaupa þá þjónustu með ferðagjöfinni. Þarna er komið eitthvert huglægt mat sem er ekki gott að mínu mati vegna þess að þetta snýst allt um að aðstoða fyrirtæki sem hafa átt í erfiðleikum og hvetja landsmenn til að ferðast til að örva hagkerfið. Liður í því er að versla við fyrirtæki sem leigja útilegubúnað. Það er fullkomlega eðlilegt að slíkt falli undir ferðaþjónustu. Þess vegna er brýnt að það verði skoðað með opnum huga.

Mér finnst þetta lýsa því hvernig ráðuneytið hefur nálgast málið. Ég hef séð hvernig ráðuneytið hefur svarað fyrirspurn um það. Mér finnst það lýsa ákveðinni vankunnáttu og skilningsleysi varðandi tilganginn með þessum rafrænu gjafabréfum sem eru að fara í dreifingu. Eins og ég segi, það hafa ekki allir efni á því að fara upp á jökul eða hestbak eða í annað sem fylgir þessari ferðaþjónustu og afþreyingu tengdri henni en vilja hins vegar geta farið í einfalda útilegu og þá leigt þann búnað. Mér finnst rétt að það verði skoðað vandlega, herra forseti, og vildi svona að lokum koma inn á það.

Að öðru leyti styðjum við í Miðflokknum frumvarpið. Við höfum stutt allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hvað varðar mótvægisaðgerðir vegna veirufaraldursins og sýnum ábyrgð í þeim efnum. En það er líka rétt að minna á það hér að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt allar tillögur minni hlutans og þar með Miðflokksins einnig í þessum aðgerðum. Það er mjög miður og ég er óþreyttur við að minnast á það í ræðustól vegna þess að við erum öll í því saman að reyna að örva efnahagslífið og koma hjólunum aftur í gang. Þess vegna á að hlusta á allar góðar tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni. En svo höfum við líka upplifað það að ekki virðist sama hvaðan tillögurnar koma. Tillögur stjórnarandstöðunnar hafa fengið örlítið breytta útfærslu hjá ríkisstjórnarflokkunum og þeir gert þær að sínum. Við þekkjum það og höfum rætt það hér. Svona er það nú í pólitíkinni.

Engu að síður tel ég að málið sé gott en það þarf hins vegar að fara yfir, eins og ég nefndi, að undir það falla ekki allir sem við í Miðflokknum teljum að ættu að falla þarna undir. Það er mikilvægt verkefni sem nefndin verður að fara vandlega yfir.