150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað sem ég hjó eftir í máli þingmannsins, og hann hefur ítrekað það hér, er að honum hafi ekki fundist umfjöllun í nefndinni vera nægilega mikil. Ég velti því bara fyrir mér, í ljósi sögu málsins, að nú eru þetta 30 ára gömul lög sem við erum að uppfæra sem mikil eftirspurn hefur verið eftir og miklar umbætur sem verið er að gera. Málið var lagt fram á þingi bæði 2013 og 2016, fékk þar einhverja umfjöllun og tekið var tillit til athugasemda. Síðan kom málið til allsherjar- og menntamálanefndar 5. nóvember sl. Það eru sjö mánuðir síðan. Að mínu mati höfum við haft nánast heilan þingvetur til að fara vandlega yfir þetta mál. Að sjálfsögðu var málið þar á undan í samráðsgátt stjórnvalda og líka unnið í samráði við fjölmarga aðila fyrr og nú, eins og áður segir.

Ég velti fyrir mér: Hvað finnst þingmanninum vanta upp á? Að mínu mati höfum við komist ansi langt með málið og ég held að lengra verði ekki komist vegna þess að forsendur eru margar hverjar mjög óljósar. Við setjum þarna inn endurskoðunarákvæði þannig að þá er kannski hægt að meta það á raunhæfan hátt að þeim tíma liðnum. En ég er hissa á athugasemdum þingmannsins um að honum finnist umfjöllun ekki hafa verið næg. Ég vildi kannski aðeins heyra betur í honum um það hvað honum finnst vanta upp á, ég er algerlega ósammála þessu.

Annað er varðandi 12. gr. Nú hef ég marglesið umsagnir frá Persónuvernd. Önnur er frá 11. desember og hin frá 19. maí. Í fyrsta lagi er frumvarpið unnið í samráði við Persónuvernd þannig að það standist öll lög um persónuvernd. Svo kemur hér, í seinni umsögninni frá 19. maí, alveg skýr niðurstaða um að ekki sé þörf á að taka ákvæði til endurskoðunar með hliðsjón af lögunum, að þetta sé algjörlega í samræmi (Forseti hringir.) við lögin. Ég er aftur ósammála þingmanninum þarna. En það væri kannski áhugavert að heyra (Forseti hringir.) einhverjar viðbætur við pælingar hans um persónuverndarlögin.