150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hvort hann hafi ekki, líkt og ég, áhyggjur af samspilinu á milli hlutabótaleiðarinnar sem við munum ræða hér á morgun, framlengingu hennar, og þessa frumvarps þar sem verið er að styrkja fyrirtæki til að segja upp fólki. Telur hv. þingmaður ekki að þegar fyrirtækin standa frammi fyrir reikningsdæminu sé hagstæðara að segja fólkinu upp en að halda ráðningarsambandi og framlengja hlutabótaleiðina?

Eitt af markmiðum þessa frumvarps er að tryggja réttindi launafólks. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að það sé erfitt að gera það vegna þess að skilyrðin sem sett eru fyrir því að fyrirtæki fái þennan stuðning í ríkissjóði eru svo veik? Það hefði verið nær að setja skilyrði um endurgreiðslur með einhverjum hætti, líkt og Samfylkingin leggur til, að þeir sem geta á árunum 2023–2033, á tíu ára tímabili, hagnast á því tímabili greiði sérstakan tekjuskattsauka upp í þennan styrk. Það væri þá einhver hvati fyrir fyrirtækin að velja frekar að halda launafólkinu í ráðningarsambandi ef þau vita að það er einhver endurgreiðsla þó að hún sé hlutfallslega eftir því hvernig afkoman verður í framtíðinni.