150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að fá að geyma að fjalla um frumvarp sem verður líklegast til umfjöllunar hér á morgun um hlutabótaleiðina. Ég hef mínar skoðanir á því og ég hef látið í ljósi að það frumvarp eins og það liggur fyrir, ég vona að það taki ákveðnum breytingum, sé gallað og vinni gegn markmiðum sínum. En ég mun fjalla betur um það á morgun.

Vinna þessi frumvörp saman, það sem við fjöllum um hér og síðan frumvarpið um hlutabótaúrræðið eða vinna þau hvort gegn öðru? Í fyrsta lagi er þetta úrræði sem við fjöllum um hér eingöngu fyrir þau fyrirtæki sem orðið hafa fyrir gríðarlegum tekjumissi, yfir 75%. Stór hluti þeirra fyrirtækja, guði sé lof, sem munu hugsanlega geta nýtt sér hlutabótaleiðina munu ekki geta nýtt sér þessa leið vegna þess að tekjufallið, sem betur fer, hefur ekki orðið jafn alvarlegt og raun ber vitni.

Þegar kemur að því hvort endurgreiða eigi þennan opinbera stuðning, vegna þess að við hv. þingmaður höfum einmitt átt nokkrar umræður um það, þá er verið að endurgreiða í formi þess að skylda fyrirtækin til að tekjufæra þennan stuðning. Þessi tekjufærsla er auðvitað étin upp vegna þess að fyrirtækið er með skattalegt tap. Það hverfur síðan. Ef það væri ekki tekjufærsla væri hið skattalega tap fyrir hendi og fyrirtækið myndi, ef það lifir, sem við vonum, ekki byrja að greiða tekjuskatt (Forseti hringir.) fyrr en eftir mörg ár. Við erum sem sagt að flýta tekjuskattsgreiðslum fyrirtækjanna með því að skylda þau til að tekjufæra og éta upp hið skattalaga tap sem uppsafnað er.