150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hélt að ég hefði nú alveg sagt það skýrt að þetta mál væri til bóta en það væri ekki jafn mikið til bóta og ég hefði viljað sjá. Ég tel reyndar að meiri hluti nefndarinnar sé mér sammála með það. Alla vega myndi hann varla leggja til heildarendurskoðun á lögum á sama tíma og hann leggur til að málið sé gert að lögum. Ef þetta mál væri fullkomlega og algjörlega til bóta þá þyrfti þess ekki.

Varðandi samráð við hagsmunaaðila er rétt að við förum ekki í einu og öllu eftir því sem hagsmunaaðilar leggja fram en við erum ekki oft með mál sem varða einn hóp sérstaklega, sem Menntasjóður námsmanna gerir, hann varðar námsmenn. Þess vegna hefði ég a.m.k. talið æskilegt að fulltrúar námsmanna fengju það rými á nefndarfundi að þeir fengju að klára að gera grein fyrir athugasemdum sínum. Það er ekki bara eitthvað sem námsmönnum fannst skorta á. Ég sat á þeim fundi og veit að þau náðu ekki að komast í gegnum allar sínar athugasemdir.

Það er talsvert margt í athugasemdum þeirra sem ekki er orðið við. Þó að ég hafi nefnt nokkur atriði þá er þingmaðurinn væntanlega með í höndunum sömu tölvupósta og ályktanir og hafa borist mér og öðrum þingmönnum í dag og í gær þar sem þetta er útlistað. Í flestum tilvikum eru þetta atriði þar sem hinn hagsmunaaðilinn er ráðuneytið, (Forseti hringir.) fjárveitingavaldið sem ákvað bara að svona skyldi þetta vera. Það er ekki endilega hagsmunaaðilinn (Forseti hringir.) sem á að vega þyngra en námsmennirnir sjálfir.