150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef þetta frumvarp verður samþykkt án breytingartillagna Samfylkingarinnar mun það líklegast hafa þau áhrif að fyrirtæki segi upp fólki frekar en að halda ráðningarsambandi við það. Ég hef óskað eftir því, eftir að ASÍ sendi frá sér bréf til okkar þingmanna, að málið fari inn til nefndar og er nú þegar búið að gera ráð fyrir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd kl. 13 í dag, vegna þess að það eru auðvitað efasemdir um stöðu starfsfólks ef málið fer óbreytt í gegn.

En Samfylkingin gerir tillögur um endurgreiðslur eftir getu þegar fyrirtækin hafa rétt úr kútnum, um hámarkslaun eigenda eða æðstu stjórnenda fyrirtækis til samræmis við skilyrði í frumvarpi um hlutabótaleið, um að aðilar sem tengjast skattaskjólum fái ekki stuðning með almannafé og um að stærri fyrirtæki sem fá stuðning geri áætlanir í loftslagsmálum. Við munum ekki geta stutt þetta mál eins og það er núna en vonandi mun það taka góðum breytingum á milli 2. og 3. umr. í nefndinni.