150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við í Miðflokknum lögðum til að farin yrði önnur leið til að ná þessu markmiði sem við töldum betri; leið sem stundum er kölluð fiskvinnsluleiðin, þ.e. að gefa fyrirtækjum tækifæri til að gera hlé á ráðningarsamningi á meðan aðstæður eru þær sem þær eru nú. Ríkisstjórnin ákvað að fara aðra leið og við höfum heitið því að styðja öll mál sem eru til þess fallin að takast á við vandann að sinni a.m.k. Það er alveg ljóst að fyrirtæki sem hefur misst 75% tekna sinna er hvorki í stöðu til að greiða laun né laun á uppsagnarfresti. Það þarf að gera eitthvað og þetta er eitthvað þannig að við styðjum það.

Hvað varðar breytingartillögur minni hlutans er það að okkar mati fráleitt að fyrirtæki sem er að berjast fyrir lífi sínu sé sett í þá stöðu að eiga að búa til áætlun í loftslagsmálum, ella fái það að fara í þrot. Við styðjum það ekki.