150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[13:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það lítur út fyrir að þingheimur sé allur sammála um að námslán eigi að duga til framfærslu. En við erum hins vegar ekki sammála um hvort við viljum hafa lögin þannig að það sé alveg skýrt að þannig skuli það vera heldur kýs meiri hlutinn áfram að treysta því að sjóðstjórn muni breyta fyrri háttum sínum af ástæðum sem enginn hefur útskýrt hvers vegna ætti að vera. Meiri hlutinn leggur til í nefndaráliti sínu, í textanum til sjóðstjórnar, að hún taki tillit til þess. Það er gott og blessað en það er ekki hluti af lögunum sjálfum. Hér er því lagt til að settur verði inn nýr málsliður sem kveði á um að framfærslukostnaður skuli aldrei metinn lægri en sem nemur dæmigerðu neysluviðmiði samkvæmt útreikningum félagsmálaráðuneytisins um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Í dag notar sjóðstjórn grunnneysluviðmið sama ráðuneytis sem að mati 1. minni hluta er ekki nóg. Rétt er að geta þess að 2. minni hluti leggur til í sinni breytingartillögu efnislega samhljóða ákvæði sem er þó útfært eða orðað öðruvísi.