150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi eftirlit þá boðar frumvarpið mjög hert eftirlit, bæði samtímaeftirlit og eins eftirlit Vinnumálastofnunar, sem tekur ákveðin fyrirtæki og rannsakar þau ef eitthvað gruggugt er á ferðinni. Vinnumálastofnun hefur fengið aukna fjármuni og hefur bætt við sig starfsmönnum og er í beinu sambandi við ríkisskattstjóraembættið. Það er samkeyrsla á staðgreiðsluskrám og gögnum sem koma til Vinnumálastofnunar. Þetta á því að vera miklu öflugra en farið var fram með þegar við þurftum að bregðast við, og það hratt, varðandi fyrra frumvarpið til að halda ráðningarsambandi og vissum ekki hvert þetta myndi leiða okkur með tilliti til áframhaldandi atvinnuleysis og erfiðleika.

Nú erum við að feta okkur áfram í því að mæta aðstæðum eins og þær eru og trappa okkur ákveðið niður en líka að horfast í augu við að sum fyrirtæki munu ekki hefja fulla starfsemi næstu mánuðina og misserin. Því miður blasir það við hópi launafólks að fara á atvinnuleysisskrá. Sum fyrirtæki munu draga saman starfsemi sína í ljósi þeirrar efnahagskreppu sem nú er. Þess vegna er mjög mikilvægt að við erum líka að lengja í tekjutengdum bótum hjá sjálfstætt starfandi einstaklingum (Forseti hringir.) og horfum til þess að halda utan um sem flesta sem verða fyrir áfalli í yfirstandandi kreppu.