150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Heildarkostnaður aðgerðarinnar er metinn á milli 30 og 40 millj. kr. á ársgrundvelli til næstu fimm ára. Hér er fyrst og fremst verið að tala um gerð nýs náms- og fræðsluefnis og þar af leiðandi er talið að kostnaðurinn fari lækkandi eftir því sem líður á áætlunina hvað það varðar. Komið hefur til greina að nýta hluta þeirra fjármuna sem runnu tímabundið til Jafnréttissjóðs Íslands í þessa forvarnaáætlun.

En eins og ég sagði í máli mínu og nefndin gerir rækilega grein fyrir þá eru hér ákveðin atriði. Annars vegar að forsætisráðherra fái til sín árangursmat á hverju einasta ári á þessum fimm árum til að sjá hverju fram vindur og hvernig gengur. Mér finnst mikilvægast af öllu að áætlunin nái fram að ganga. Síðan er það þetta með fjármögnunina. Ef í ljós kemur, eins og nefndin leggur áherslu á, að það vanti fjármuni á þriðja ári af þessum fimm þá verður við því brugðist og kemur þá væntanlega til kasta Alþingis að veita aukna fjármuni í þetta mál ef það er ekki tryggt annars staðar. Þess vegna held ég að við þurfum líka að kalla eftir því þegar þetta mál verður samþykkt og fer í gang að á hverju einasta ári getum við í nefndinni alltaf kallað eftir því hvernig gengur, hvernig hefur miðað, til að vera sannfærð um að verið sé að leggja næga fjármuni í þessar aðgerðir. En eins og ég segi, það fellur kannski til töluverður kostnaður í upphafi, sannarlega í forvarnafulltrúastarfið hjá sambandinu. En það eru samt 30–40 milljónir sem í þetta verkefni eru ætlaðar.