150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég sé ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sé mögulega að fara að falla á þessu prófi. Ástæðan er sú að í stjórnarsáttmálanum stendur, sem hún getur veifað á ríkisstjórnarfundum og sagt: Þetta er það sem við lofuðum, þetta er það sem skal gert, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum.“

Eitt af því sem GRECO talar um er eftirlit. Og hvað segir síðan í traustskýrslu forsætisráðherra? Jú, að hagsmunaárekstrar, í þessu tilfelli ráðherra sem munu ekki vera undir eftirliti — með leyfi forseta:

„Hagsmunaárekstrar er sá þáttur stjórnmála- og stjórnsýslu sem vekur hvað mesta andúð í samfélaginu. Grunsemdir almennra borgara (sem oft geta virst á rökum reistar) um að kjörnir fulltrúar eða opinberir starfsmenn misnoti aðstöðu sína í eigin þágu eða sinna nánustu — eða séu með þeim hætti tengdir hagsmunaaðilum“ — eins og við vitum að sumir eru — „að þeir geti með einum eða öðrum hætti verið háðir þeim, jafnvel á valdi þeirra — leiða til ásakana um spillingu og stuðla almennt að kaldhæðnislegri afstöðu (Forseti hringir.) til opinberra ákvarðana …“

Nú fer málið í nefnd. Ef þetta er ekki lagað, að haft sé eftirlit með ráðherrum eins og minni hlutinn leggur til, þá er það fall (Forseti hringir.) á prófinu um eflingu trausts á stjórnmálum. (Forseti hringir.) Og það væri mjög miður.